Innlent

Góð kolmunnaveiði eftir brælu

Svavar Hávarðsson skrifar
Mikið líf er að jafnaði í höfninni á þessum tíma árs. mynd/kristín hávarðsdóttir
Mikið líf er að jafnaði í höfninni á þessum tíma árs. mynd/kristín hávarðsdóttir
Góð veiði hefur verið á kolmunnamiðunum við Færeyjar eftir að veður gekk þar niður. Til Neskaupstaðar tínast skip Síldarvinnslunnar eitt af öðru til hafnar með góðan afla; Börkur NK kom til Seyðisfjarðar með fullfermi eða 1.800 tonn og Beitir NK með fullfermi eða 2.100 tonn.

Flest skipanna eru að fá 300 til 500 tonn í holi en misjafnt er hve lengi er togað. Stystu holin eru oft um fjórir tímar en stundum er togað í allt að tíu tíma. Veiðisvæðið er hið sama og verið hefur að undanförnu; um 90 mílur suður af Suðurey. Fjarlægðin frá veiðisvæðinu er um 350 mílur og eru skipin um einn og hálfan sólarhring að sigla frá miðunum til Austfjarðahafna í góðu veðri.

Í Neskaupstað er búið að taka á móti um 8.300 tonnum af kolmunna til mjöl- og lýsisvinnslu. Þá hefur einnig verið landað liðlega 1.450 tonnum af frystum kolmunna í Neskaupstað.

Flutningaskipið Green Guatemala liggur nú í höfn í Neskaupstað við að lesta frysta loðnu sem fer til Svartahafsins. Um er að ræða eina stærstu útskipun ársins en skipið mun taka 5.000 tonn af afurðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×