Innlent

Nauðgað kvöldið fyrir heimferð

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Mynd/ Getty.

Ráðist var á konu á þrítugsaldri og hún beitt líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í verslunarhúsnæði í austurborginni um þarsíðustu helgi. Konan, sem er frá Ástralíu og var ferðamaður hér á landi, hlaut mikla líkamlega áverka eftir árásina. Hún hafði átt að fljúga til síns heima um morguninn.

Árásin átti sér stað aðfaranótt 20. apríl en konan hafði verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur þegar hún þáði far með manni sem einnig er af erlendu bergi brotinn en býr hér á landi. Maðurinn fór með konuna í verslunarhúsnæði sem hann hafði aðgang að í austurborginni þar sem hann nauðgaði henni og beitti líkamlegu ofbeldi með þeim afleiðingum að hún hlaut mikla líkamlega áverka.

Engin tengsl eru á milli árásarmannsins og konunnar.

Eftir árásina keyrði maðurinn konuna á gistiheimili í miðborg Reykjavíkur þar sem hún hafði dvalið. Við komuna á gistiheimilið var strax kallað til lögreglu.

Starfsmaður á gistiheimilinu segir að konan hafi komið á gistiheimilið um morguninn og að á útliti hennar hafi verið ljóst að hún hefði orðið fyrir árás. Samkvæmt heimildum var öðrum gestum og viðskiptavinum staðarins talsvert brugðið yfir ástandi konunnar.

Lögreglumenn fluttu konuna á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á Landspítalanum. Þar gekkst konan undir réttarfræðilega rannsókn auk þess sem gert var að áverkum hennar.

Konan mun hafa flogið heim til Ástralíu sólarhring eftir árásina.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir gerandann hafa verið handtekinn. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá 20. til 24. apríl en sætir nú farbanni til 14. maí næstkomandi. Að sögn Friðriks Smára hefur rannsókn málsins gengið vel og er á lokastigi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.