Lífið

Reykir kjöt úti í garði hjá sér

Freyr Bjarnason skrifar
Stefán Baldur Árnason hjá kofanum þar sem hann reykir allt sitt kjöt. Fréttablaðið/Stefán
Stefán Baldur Árnason hjá kofanum þar sem hann reykir allt sitt kjöt. Fréttablaðið/Stefán
Stefán Baldur Árnason er óvenjulegur Vesturbæingur að því leytinu að hann notar frítíma sinn í að reykja kjöt í kofa úti í garði hjá sér.

„Ég á vinkonu sem býr í Noregi. Hún er með mataróþol og má ekki borða sykur eða nítrat. Hún var að fárast yfir því að hana langaði svo í hangikjöt en komst hvergi í það án þessara efna. Ég átti kjöt af góðum sauð og ákvað að prófa þetta sjálfur,“ segir Stefán Baldur.

Hann náði sér í stóran pappakassa og ákvað að reykja kjötið í honum úti í garði. Fram að því hafði hann geymt kjötið í pækli með hunangi. „Það var brunagaddur á þessum tíma og ég vissi að nágrannarnir voru með lokaða glugga, þannig að ég var ekkert að trufla þá.“

Hann bjó sér til brunadunk úr öldós og setti kolamola þar ofan í ásamt birkispæni. Hann laumaði dunkinum undir pappakassann en í kassann hafði hann hengt kjötið eftir að hafa snúið kassanum við. Þessi óhefðbundna aðferð svínvirkaði.

Í desember síðastliðnum þegar Stefán Baldur hélt upp á fertugsafmælið sitt tók hann matargerðina skrefinu lengra og útbjó mismunandi pækla fyrir kjötið, þar á meðal með cayenne-pipar og karrí.

Pappakassa með kjötinu geymdi hann í kofa sem sonur hans bjó til á smíðanámskeiði. Gestirnir í afmælinu voru ekki sviknir en Stefán heldur alltaf upp á afmælið sitt og segir það miðpunktinn í kjötframleiðslu sinni. Lamba- og kindaskrokkana kaupir hann og sker sjálfur og einnig veiðir hann hreindýr og gæsir og gerir reyktilraunir á því kjöti.

Auk reykta kjötsins hefur hann prófað sig áfram í pylsu- og ostagerð en nýlega bjó hann til ricotta-ost eftir að hann vantaði fyllingu í pasta sem hann var að búa til. Einnig hefur hann dundað sér við að brugga bjór. Stefán Baldur starfar sem vefstjóri hjá Össuri.

Aðspurður hvort hann sé ekki í kolröngu starfi, segist hann efast um það. „En þegar kemur að ellilífeyrinum ætla ég að flytja upp í sveit og leggjast í sjálfsþurftarbúskap. Eiginkonan ætlar að vera einhvers staðar í París á meðan. Hún hefur engan áhuga á þessu. Ég ætla bara að vera einn þar og brugga bjór, vera með rollur og svoleiðis „næsheit“.“ Hvað færðu út úr þessu öllu saman? „Þegar ég var lítill krakki bjó ég til efnafræðitilraunir og þetta er litli krakkinn í mér að gera öðruvísi efnafræðitilraunir fyrir fullorðna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.