Lífið

Netverslanir sameinast

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Sísí Ásta segist hafa tekið eftir því að fólk sé hrætt við að kaupa vörur af netinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Sísí Ásta segist hafa tekið eftir því að fólk sé hrætt við að kaupa vörur af netinu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég var að fara í gang með netverslun og varð vör við að fólk virtist vera hrætt við að kaupa af netinu og vildi fá að þreifa á vörunni. Ég vissi til þess að nokkur netfyrirtæki með barnavörur hefðu áður tekið saman höndum um að halda svona markaði en það vantaði alveg markaði sem væru með alls konar vörur,“ segir Sísí Ásta Hilmarsdóttir.

Sísí er eigandi netverslunarinnar krummafotur.is og forsvarsmanneskja hins svokallaða Glæsimarkaðar, sem verður settur upp öðru sinni nú um helgina í gömlum húsakynnum Toyota við Nýbýlaveg. Glæsimarkaðurinn var fyrst haldinn fyrir tveimur vikum síðan og voru þá 53 söluborð með ýmsum vörum. Aðsóknin hefur aukist töluvert í kjölfar þess markaðar og verða nú rúmlega 80 borð þar.

„Þetta eru aðallega netverslanir en svo eru nokkrar úthverfisverslanir sem verða þarna líka. Þetta er svolítið eins og Kolaportið nema þarna má bara selja nýjar vörur,“ segir Sísí. „Það er sérstaklega gaman hvað síðasti markaður dró mikinn dilk á eftir sér. Það voru margir sem höfðu samband við mig eftir hann og voru að spyrjast fyrir um hvernig þeir gætu haft upp á sumum þeirra sem höfðu verið með vörur á markaðnum,“ bætir hún við.

Spurð hvort Glæsimarkaðurinn sé kominn til að vera segir Sísí það vera í athugun, enda gangi hann betur en hana hafði órað fyrir. Fyrir tveimur vikum var markaðurinn aðeins í einn dag og á einni hæð en sökum vinsælda var ákveðið að hafa hann alla helgina að þessu sinni og á báðum hæðum hússins. „Síðast voru allir kófsveittir allan daginn og í lok dags var afar lítið af vörum eftir á básunum,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, sem aðstoðar Sísí við utanumhald markaðarins. „Þetta var svo mikið stuð og stemning og mikið af spennandi vörum. Ég get til dæmis ekki beðið eftir að markaðurinn byrji aftur svo ég geti birgt mig upp af Systrasultum,“ bætir hann við og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.