Skoðun

Baráttan um val

Ágúst Kristmanns skrifar
Kæra Oddný Sturludóttir

Í grein þinni „Baráttan gegn aðgreiningu“ þann 9/4 síðastliðinn ferð þú yfir skólastefnuna Skóli án aðgreiningar og segir að það sé mikilvægt að deila reynslu, segja frá og rýna til gagns.

Þar sem ég er búinn að vera í tveggja ára þrotlausri baráttu vegna velferðar sonar míns og réttar hans til að sækja skóla og nám við hæfi er ég væntanlega einn þeirra sem, að þínu mati, skella skuldinni á skólastefnuna í heild sinni og er algerlega á móti stefnunni Skóli án aðgreiningar.

Ég er búinn að „deila reynslu“ í mörgum fjölmiðlum sem og annars staðar og ég er viss um að þú hafir kynnt þér reynslu okkar fjölskyldu. Ég er búinn að „segja frá“ vandamálum sem fylgja þessari stefnu, Skóli án aðgreiningar, og er ég einnig viss um að þú hafir kynnt þér þau líka. Ef ég á að „rýna til gagns“ þar sem hvorki skóla- og frístundaráð né Menntamálaráðuneytið hefur gert það, þá er það ekki vandamál stefnunnar Skóli án aðgreiningar eða hugmyndafræði hennar að það sé búið að taka af foreldrum þroskaskertra barna það að hafa val um sérskóla eða heimaskóla. Samkvæmt lögum er það réttur fatlaðra barna að ganga í sinn heimaskóla en í tilvikum þroskaskertra barna er það skylda.

Ég aðhyllist jöfn tækifæri og réttlátt samfélag fyrir alla og mér finnst stefnan Skóli án aðgreiningar frábær skólastefna sem á alveg tvímælalaust rétt á sér en það er ekki þar með sagt að hún virki fyrir alla alltaf.

Þegar barn, eins og strákurinn minn, er hvorki með þroska né getu til að fylgja jafnöldrum sínum eftir námslega né félagslega þarf að vera val um viðeigandi umhverfi þar sem hann getur þroskast og náð að mynda vináttu með sínum jafningjum.

Við erum ekki á móti stefnunni heldur erum við að fara fram á að fá aftur þetta val sem var tekið af okkur 2010.

Kær kveðja.




Skoðun

Sjá meira


×