Lífið

Stefnumótasíða fyrir fólk í leit að maka

Sara McMahon skrifar
Björn Ingi Halldórsson forritari hannaði stefnumótasíðuna Makaleit.is. Síðan fór í loftið fyrir fimm vikum og telur um 500 notendur.
Björn Ingi Halldórsson forritari hannaði stefnumótasíðuna Makaleit.is. Síðan fór í loftið fyrir fimm vikum og telur um 500 notendur. Fréttablaðið/Stefán
Stefnumótasíðan Makaleit.is er glæný viðbót í stefnumótaflóruna hér á landi og ætluð fólki á öllum aldri. Síðan er hönnuð af Birni Inga Halldórssyni forritara og fór í loftið fyrir fimm vikum.

Björn Ingi hefur unnið að gerð síðunnar frá því í ágúst í fyrra. Hann segir viðbrögðin hafa verið góð og eru skráðir notendur nú um fimm hundruð talsins. „Það kom okkur á óvart að flestir skráðir notendur eru konur á aldrinum 30 til 45 ára. Við bjuggumst við því að karlmenn yrðu í meirihluta,“ segir Björn Ingi.

Aðspurður segir hann að vefurinn sé einstaklega traustur og geta notendur sjálfir stýrt því hverjir hafa aðgang að hvaða upplýsingum. Að auki geta skráðir notendur síðunnar óskað eftir því að láta staðfesta aldur sinn og kyn. „Vefurinn er ætlaður fólki í leit að lífsförunaut og ekki þeim sem eru í leit að einnar nætur gamni.“

Meðal þeirrar þjónustu sem Makaleit.is býður upp á er persónuleikapörun. Þá svarar einstaklingurinn spurningum um persónuleika sinn, áhugamál og viðhorf til sambanda. Niðurstaðan er síðan keyrð saman við svör aðila af hinu kyninu og þannig getur fólk auðveldlega fundið aðra sem deila áhugamálum þeirra og lífsskoðunum. „Fólk getur einnig sýnt hvort öðru „leyndan áhuga“. Hafi sömu einstaklingar sýnt hvor öðrum áhuga lætur kerfið þá vita af því, annars helst áhuginn leyndur,“ segir Björn Ingi.

Ef þú smellir hér ferðu inn á síðuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×