Banabiti átta mánaða langs ástarsambands tónlistarfólksins Katy Perry og Johns Mayer, sem lauk í síðustu viku, mun hafa verið símanúmer konu sem Perry fann í hanskahólfinu í bíl Mayers.
Slúðurmiðlar ytra höfðu áður leitt að því líkur að miklum önnum beggja við tónlistarsköpun og hljómleikaferðir væri um að kenna. Ónefndur heimildarmaður breska tímaritsins Grazia vill þó meina að parið hafi verið á leiðinni á hundaheimili í Los Angeles í Land Rover-bíl Mayers þegar það ákvað að taka bensín. Þá hafi Perry opnað hanskahólfið, fundið símanúmer hjá annarri konu skrifað á servíettu og eitt hafi leitt af öðru. Síðan þá hafi þau ekki talast við.

