Innlent

Fjölskyldan komin í fyrsta sæti

Sigríður Björg Tómasdóttir skrifar
Mynd/Auðunn
Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Magnúsi Geir Þórðarsyni. Hann eignaðist son í janúar og heldur heimili ásamt konu sinni Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur á tveimur stöðum. Frumsýning Mary Poppins var svo hápunktur á vel heppnuðu leikári.

Það er rólegt og afslappað andrúmsloft í Borgarleikhúsinu þegar blaðamaður á þar leið um. Erindið er að hitta Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóra. Veturinn hefur verið annasamur hjá Magnúsi, eins og vanalega er fjöldi leikverka á dagskrá leikhússins og nýafstaðin er frumsýning á viðamestu uppfærslu í sögu Borgarleikhússins, Mary Poppins. Rólegheitin á þessum þriðjudegi eru því ekki lýsandi fyrir starfið í húsinu og þó að Magnús Geir sé mjög afslappaður og ánægður með vel heppnað leikár sem sér fyrir endann á þá er að nógu að huga, dagarnir eru undirlagðir af skipulagi fyrir næsta vetur.

„Það er að mörgu að hyggja í verkefnavali þegar dagskrá nýs leikárs er sett saman. Við reynum lesa í það hvaða sögur fólk vill sjá á sviði – en ekki síður viljum við finna sögurnar sem áhorfendur okkar þurfa að heyra. Leikhús er ekkert án áhorfenda og okkar keppikefli er að laða þá í leikhúsið og segja þeim sögur sem skipta máli. Leikhúsið getur nefnilega, þegar best lætur, veitt okkur nýtt sjónarhorn á lífið. Kúnstin í verkefnavalinu felst líka í samsetningunni innan leikársins. Við viljum láta heitt og kalt kallast á, bjóða upp á aðgengileg verk í bland við önnur ágengari, íslensk og erlend, hefðbundin og tilraunakennd. Svo þarf að stilla þessu öllu upp með tilliti til leikhópsins í húsinu og álags á sviðum, þetta getur verið býsna flókið en er líka mjög skemmtileg vinna. Nú erum við að leggja lokahönd á næsta leikár – sem mér finnst einstaklega spennandi."

Sneri vörn í sókn

Magnús Geir tók við starfi leikhússtjóra í Borgarleikhúsinu árið 2008 og aðsóknin að leikhúsinu jókst strax umtalsvert og er nú meiri en nokkru sinni fyrr í íslenskri leikhússögu. Áskriftarkortasala margfaldaðist einnig frá því sem áður var. Þann sama vetur blasti hins vegar við niðurskurður á opinberu framlagi til leikhússins vegna efnahagshrunsins.

„Búist var við að þetta myndi leiða til niðurskurðar á starfsemi leikhússins. En þess í stað settum við upp áætlun um að auka sýningahald enn frekar, sækja fleiri gesti og auka tekjur. Þau markmið gengu eftir og starfsfólk Borgarleikhússins sneri vörn í sókn. Þetta er ágætis dæmi um þann mikla samtakamátt og kraft sem býr í frábærum starfsmannahópnum.

Það er grunnurinn að velgengni leikhússins. Þegar litið er til baka er ég mjög stoltur af þessum viðbrögðum og ekki síður af því hvað Borgarleikhúsið brást hratt við hruninu listrænt séð, kallaði til höfunda og sviðsetti verk sem tóku beint á breyttum aðstæðum samfélagsins. Lestur Rannsóknarskýrslu Alþingis var önnur birtingarmynd þess. Þannig kappkostar Borgarleikhúsið að eiga í virku samtali við samfélagið." Í vetur hafa óvenju margar sýningar af ólíku tagi fallið í kramið og má þar nefna Rautt, Gullregn, Mýs og menn, Tengdó, Ormstungu og Mary Poppins.

Allt lagt undir

Magnús Geir segir ekki endilega alltaf fyrirsjáanlegt hvað gangi vel í leikhúsinu og mismikið sé lagt undir þegar verið sé að ákveða hvaða sýningar séu settar upp. „Við reiddum til dæmis mjög hátt til höggs þegar við ákváðum að setja Mary Poppins upp. Sýningin er afar umfangsmikil og flókin í alla staði. Við ákváðum að leggja mikið í hana og því þurfti mikla aðsókn til að dæmið gengi upp. En það gerði það, sýningin er frábærlega heppnuð listrænt séð, viðtökurnar hafa verið einstakar og þegar er uppselt lengra fram í tímann en áður hefur þekkst!"

Magnús Geir, sem er duglegur að fylgjast með leikhúslífi utan Íslands, sá þessa sýningu fyrst í London árið 2004. „Ég hreifst strax af verkinu en áleit hana of stóra og flókna fyrir Ísland – taldi að íslenskt leikhús réði ekki við uppsetninguna. Ég sá hana nokkrum sinnum eftir þetta og var alltaf sama sinnis, þar til í fyrra þegar við ákváðum að slá til og leggja allt í sölurnar. Og það er alveg frábært hvernig til hefur tekist, sýningin er með risastórt hjarta og einstaklega glæsileg," segir Magnús Geir. En hvernig er þá tilfinningin fyrir næsta vetri, er pressan meiri eftir vetur þar sem hver metsýningin hefur rekið aðra?

„Ég er löngu búinn að læra að það þýðir ekki fyrir leikhús að keppast endalaust við að toppa sjálft sig í aðsókn. Þá yrðum við um leið fangar eigin velgengni. Það eina sem við getum gert er að reyna að vera heiðarleg í því sem við erum að gera, segja sögur sem okkur finnst skipta máli – og reyna að koma fólki á óvart. Þannig viðheldur maður neistanum," segir Magnús Geir.

Frumburðurinn í heiminn

Magnús sér reyndar fram á töluvert ólíkan vetur en undanfarin ár. Ástæða þess eru breyttar aðstæður í einkalífinu og fæðing frumburðar hans, Árna Gunnars, sem kom í heiminn í janúar á þessu ári.

„Ég ætla að vera í fæðingarorlofi í haust, taka þrjá mánuði þá en ég tók mér reyndar líka mánaðarfrí í janúar," segir Magnús Geir, sem er reyndar ekki bara orðinn faðir heldur líka stjúpfaðir þriggja barna Ingibjargar Aspar Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Hofs, menningarseturs Akureyrar.

Þau kynntust þegar þau unnu saman hjá Leikfélagi Akureyrar á sínum tíma, en svo bankaði ástin upp á fyrir rúmu ári. Ingibjörg Ösp er fædd og uppalin fyrir norðan og halda þau Magnús Geir tvö heimili, á æskuslóðum Ingibjargar í Eyjafirði og í Vesturbæ Reykjavíkur.

Þangað liggur leið blaðamanns nokkrum dögum eftir fundinn við Magnús Geir í Borgarleikhúsinu. Ingibjörg Ösp og Árni Gunnar hafa brugðið sér í bæinn en þau, rétt eins og Magnús Geir, eru fastagestir hjá Flugfélagi Íslands. „Ég veit ekki hvað við erum búin að fljúga marga kílómetra, þeir eru ansi margir." Heimilishald á tveimur stöðum hljómar frekar flókið, hvernig gengur það fyrir sig? „Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel," segir Ingibjörg Ösp.

„Við erum lánsöm að vera bæði í svona gefandi störfum, þó þau séu hvort í sínum landshlutanum. Auðvitað krefst þetta skipulagningar og samverustundirnar eru ekki eins margar og maður helst vildi. En það eru margir sem standa í þeim sporum að vinna óreglulegan vinnutíma, til dæmis allt fólkið sem vinnur vaktavinnu. Þetta er ekkert flóknara hjá okkur en þeim," bætir hún við.

Alltaf á flugi

„Við erum saman allar helgar, annaðhvort fer ég norður eða Ingibjörg kemur suður, oft með öll börnin. Svo skjótumst við líka yfirleitt eitthvað á milli í miðri viku, sem betur fer er flugið ekki langt," segir Magnús Geir, sem viðurkennir að það sé töluverð breyting fyrir vinnufíkil eins og hann að vera kominn með fjölskyldu. „Ég vissi svo sem alltaf að ég ynni mikið en það var ekki fyrr en ég var kominn með fjölskyldu að ég áttaði mig á því hvað ég hafði verið óeðlilega mikið í leikhúsinu. En nú er fjölskyldan að sjálfsögðu í fyrsta sæti – það er samt feikinóg eftir fyrir leikhúsið."

Þrjú stjúpbörn, það hefur varla verið einfalt? „Það gengur bara mjög vel held ég, að minnsta kosti er rosalega gaman hjá okkur. Sem betur fer eru krakkarnir mjög áhugasöm um leikhús, verra hefði verið ef fótbolti væri aðaláhugamálið," segir Magnús Geir og hlær. „Hann stendur sig mjög vel. Það er varla einfalt að vera kominn með ekki bara einn heldur þrjá kvenmenn inn á heimilið," bætir Ingibjörg Ösp við, sem átti þær Örnu sextán ára og Andreu fjórtán ára fyrir, auk Stefáns sem er tíu ára gamall.

Sveit og borg

Fjölskyldan telur því sex þegar allir eru á staðnum og fjörið er mikið. „Eldri börnin hafa tekið þeim litla mjög vel og sem betur fer eru allir sáttir og glaðir bæði fyrir norðan og hér í Reykjavík," segir Magnús Geir. „Þetta eru skemmtilegar andstæður, sveitakyrrðin í Eyjafirði og borgarmenningin í Vesturbænum," segir Ingibjörg Ösp. Þau Magnús Geir hafa svipuð áhugamál og segjast njóta þess að ræða vinnuna og finna stuðning hvort í öðru. Hún hefur störf á ný af fullum krafti í haust eftir fæðingarorlof og þá ætlar Magnús Geir í feðraorlof sem fyrr segir. „Svo höldum við bara áfram að fljúga á milli og vera í hópi dyggustu styrktaraðila Flugfélags Íslands. Verst að við kunnum ekki að fljúga á regnhlíf eins og Mary Poppins." Árni Gunnar er sofnaður, kaffið búið og komið að því að kveðja. Ingibjörg Ösp og Árni Gunnar eru á leiðinni norður og tveir dagar í að fjölskyldan sameinist. „Næst fer ég norður, það er aðeins minna mál þó að sá litli standi sig yfirleitt vel í fluginu," segir Magnús Geir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×