Innlent

Skipin ekki að fá neitt af loðnu

Svavar Hávarðsson skrifar
Mikið þarf að hafa fyrir því að ná loðnunni þessa dagana. mynd/hbgrandi
Mikið þarf að hafa fyrir því að ná loðnunni þessa dagana. mynd/hbgrandi mynd/hb grandi
Loðnuvertíðinni er að ljúka er mat Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE, en skipin eru almennt ekki að fá neinn teljandi afla á miðunum í Breiðafirði.

„Það gengur ekki neitt. Við köstuðum einu sinni fyrir hádegið en fengum engan afla. Það er töluvert af skipum hér í Breiðafirðinum en ég hef ekki haft spurnir af því að eitthvert þeirra hafi fengið afla í dag [í gær]," segir Albert í viðtali á vef fyrirtækisins.

Albert segir að nú verði einungis vart við loðnu sem liggur við botninn en vonar að hún komi upp og gefi sig þegar það líður á daginn. Sjómenn hafa ekki frétt af því að meira af loðnu sé að koma suður með Vestfjörðum, en vesturganga hefur haldið uppi veiðinni síðustu daga, er mat sjómanna.

Um 5.000 tonn eru nú óveidd af loðnukvóta skipa HB Granda á vertíðinni þannig að ef botninn er ekki alveg dottinn úr veiðunum samsvarar það einni veiðiferð fyrir hvert hinna fjögurra skipa félagsins. Þrjú skipanna voru við loðnuleit í Breiðafirði í gær. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu í gær var búið að veiða um 90% af kvótanum í gær. Því er ekki útséð um að menn nái að veiða hann allan. Kvótinn í ár er um 464 þúsund tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×