Innlent

Norðurskautsráð verði eini vettvangurinn

Þorgils Jónsson skrifar
Vel fór á með Carl Bildt og Össuri Skarphéðinssyni í gær. Ráðstefna um norðurslóðir fer fram í dag og á morgun.
Vel fór á með Carl Bildt og Össuri Skarphéðinssyni í gær. Ráðstefna um norðurslóðir fer fram í dag og á morgun. Fréttablaðið/Stefán
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Össur Skarphéðinsson, starfsbróðir hans, eru sammála um að rétt sé að fleiri ríkjum verði veitt áheyrnaraðild að Norðurskautsráði. Það myndi tryggja ráðið í sessi sem hinn eina umræðuvettvang um málefni sem tengjast norðurslóðum. Þetta kom fram í máli ráðherranna á setningarathöfn alþjóðlegrar ráðstefnu um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum sem nýstofnað Rannsóknasetur um norðurslóðir stendur fyrir.

Átta ríki eiga aðild að ráðinu en auk þess eru sex önnur ríki áheyrnaraðilar. Fleiri ríki hafa sótt um að fá áheyrnaraðild, til að mynda Kína.

Össur og Bildt sögðust báðir í ávörpum sínum vonast til þess að ráðið kæmi til með að eflast að burðum á komandi árum. Hluti af því væri að bæta við áheyrnaraðilum.

„Með því að fá fleiri til að gangast undir okkar viðmið og reglur getum við fest Norðurskautsráðið í sessi sem hinn eina samráðsvettvang," sagði Bildt og bætti því við að ef öðrum ríkjum yrði vísað frá gæti það orðið til þess að þau leituðu annað. Fleiri áheyrnaraðilar fælu hins vegar ekki í sér minni völd aðildarríkjanna.

Össur tók undir þetta og bætti því við að nýjum áheyrnaraðilum yrði ekki hleypt inn nema þeir gengjust undir reglur Norðurskautsráðsins og legðu sitt af mörkum til rannsóknastarfs. Næsti ráðherraráðsfundur Norðurskautsráðsins verður haldinn í Kírúna í Svíþjóð í maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×