Gagnrýni

Besti Tomb Raider í langan tíma

Bjarki Þór Jónsson skrifar
Grafíkin í Tomb Raider er ótrúleg og heildarútlit leiksins einstaklega vel heppnað.
Grafíkin í Tomb Raider er ótrúleg og heildarútlit leiksins einstaklega vel heppnað.
Tölvuleikur. Tomb Raider. Square Enix

Í nýjasta Tomb Raider-leiknum fáum við að kynnast forsögu Löru Croft. Síðastliðin ár hafa Tomb Raider-leikirnir verið misgóðir og í flestum tilfellum ekki náð að standast væntingar aðdáenda, en í þessum nýja Tomb Raider-leik er reynt að blása nýju lífi í frekar þreytta leikjaseríu. Að þessu sinni fáum við að kynnast Löru Croft sem frekar saklausri tilfinningaveru. Á leið sinni í fornminjaleit lenda Lara Croft og fylgdarlið hennar í sjóslysi og endar hópurinn á eyju þar sem þau komast í kynni við skuggalegan költ-hóp. Í kjölfarið hefst æsispennandi atburðarás þar sem Lara Croft þarf að kanna eyjuna, leysa þrautir, verjast árásum og forða sér frá sprengingum og hrynjandi hellum.

Spilun leiksins er vel heppnuð og nokkuð auðveld. Spilarinn þarf ekki að leggja marga stjórntakka á minnið þar sem leikurinn minnir spilarann sífellt á hvað takkarnir gera. Fyrstu klukkutímana aðstoðar leikurinn spilarann óvenju mikið og verða leiðbeiningar leiksins fljótt þreytandi fyrir vana spilara sem vilja henda sér beint út í djúpu laugina en áhugaverð saga og mikill hasar ná að halda manni við efnið. Það er ekki fyrr en í síðari hluta leiksins sem hann hættir að hugsa fyrir spilarann og loks fær hann að leysa verkefnin sjálfur. Leikurinn byggir fyrst og fremst á einspilun þar sem hægt er að spila í gegnum söguþráðinn og klára ýmis minni aukaverkefni sem tekur samanlagt góða tíu til fjórtán klukkutíma að klára. Sagan hefur sínar hæðir og lægðir en heldur manni þó ávallt við efnið. Betur hefði þó mátt standa að talsetningu leiksins sem er á köflum ansi slöpp. Fjölspilun leiksins er frekar óspennandi og bætir litlu við leikinn.

Grafíkin í Tomb Raider er ótrúleg og heildarútlit leiksins einstaklega vel heppnað. Þó svo að leikurinn bjóði upp á þekkta formúlu sem er iðulega notuð í þriðju persónu ævintýraleikjum nær stórbrotið útsýni, úthugsuð staðsetning myndavéla og kröftug tónlist að ýta undir nýja og skemmtilega upplifun. Það hefði mátt leggja meiri áherslu á þrautir í leiknum en á heildina litið er afraksturinn vel heppnaður og gaman að sjá eina merkustu kvenhetju tölvuleikjasögunnar snúa aftur.



Niðurstaða: Nýi Tomb Raider-leikurinn nær að blása nýju lífi í leikjaseríuna með miklum hasar, skemmtilegum þrautum og fallegri framsetningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×