Innlent

Fái fé til eftirlits með fjölmiðlum

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar tekur undir sjónarmið Samkeppniseftirlitsins í nefndaráliti.
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar tekur undir sjónarmið Samkeppniseftirlitsins í nefndaráliti. Fréttablaðið/GVA
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vill að Samkeppniseftirlitið fái auknar fjárheimildir til að sinna rannsóknum á eignarhaldi fjölmiðla. Þetta kemur fram í áliti meirihlutans á nýjum lögum um fjölmiðla.

Í lagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið fylgist með fyrirtækjum á fjölmiðlamarkaði og hafi meira eftirlit með samrunum þar. Lagt er til að eftirlitið leiti umsagnar frá fjölmiðlanefnd áður en gripið er til aðgerða og einnig mun fjölmiðlanefndin geta óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið taki mál til rannsóknar.

„Í umsögn fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins er að finna gagnrýni á kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins og það er mat þeirra að það sé verulega vanáætlað og ljóst sé að þau geti ekki sinnt þeim auknu skyldum sem felast í frumvarpinu miðað við núverandi fjárheimildir sínar,“ segir í meirihlutaálitinu. Samkeppniseftirlitið telur að hver rannsókn á fjölmiðlamarkaðnum kosti að minnsta kosti sextíu milljónir króna og til að gera það þurfi að bæta við einu og hálfu stöðugildi.

Meirihluti nefndarinnar tekur undir að niðurstaða kostnaðarmatsins sé óraunhæf og vill að tekið verði „tillit til þessa við vinnslu fjárlaga þessa árs“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×