Innlent

Borgin vill sjálf draga burt bíla utan stæða

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Lögreglan hefur margoft sektað eigendur bíla sem hafa lagt þeim ólöglega.
Lögreglan hefur margoft sektað eigendur bíla sem hafa lagt þeim ólöglega. Fréttablaðið/pjetur
„Þessi heimild er lögreglunnar núna en hún hefur ekki tíma í þetta frekar en margt annað sem hún á að vera að sinna. Svo borgarstjóri hefur óskað eftir því að Reykjavíkurborg og Bílastæðasjóður megi draga burt bíla,“ segir Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs.

Innanríkisráðuneytið hefur nú til skoðunar umsókn borgarinnar um að Bílastæðasjóður fái að draga burt bíla sem er lagt ólöglega. Umsögn hefur borist frá lögreglustjóranum í Reykjavík og er hann jákvæður gagnvart breytingunni. Gert er ráð fyrir því í nýjum umferðarlögum að sveitarfélög geti stundað aðgerðirnar í stað lögreglu, en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem hefur sótt um.

„Þegar þetta gengur í gegn megum við láta draga bíla sem eru að valda hættu,“ segir Kolbrún. Hún segir mikið kvartað yfir viðbragðsleysi lögreglunnar vegna bíla sem er lagt ólöglega í borginni.

„En þetta er vald sem er vandmeðfarið og við þurfum að gæta að því þegar við fáum þessa heimild.“

Kolbrún býst ekki við því að bílar, sem lagt er í stæði fyrir fatlaða, verði dregnir í burtu einfaldlega vegna þess að fólk eigi það til að gleyma að setja viðeigandi kort í gluggann.

„En þar sem þeim er lagt á hornum, gangstéttum og þar sem þeir hindra aðgang slökkviliðs- og sjúkrabíla verða þeir fluttir,“ segir hún. „Ég vona að þetta virki bara sem fælingarmáttur og við þurfum ekki að beita þessu mikið, þótt ég sé ekki bjartsýn á það.“

Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri hjá innanríkisráðuneytinu, segir að nú sé beðið eftir umsögn frá Reykjavíkurborg varðandi undir hvaða kringumstæðum borgin myndi nýta þessa heimild. Að því loknu tekur ráðherra afstöðu til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×