Innlent

Gera ráð fyrir 80 milljóna leigu

Svavar Hávarðsson skrifar
Leigusamningur ríkis og borgar er svo gott sem tilbúinn.
Leigusamningur ríkis og borgar er svo gott sem tilbúinn. Fréttablaðið/Stefán
Samningur Reykjavíkurborgar og ríkisins um leigu á Perlunni liggur fyrir og bíður samþykktar borgarráðs. Með samningnum er sýningarhúsnæði fyrir Náttúruminjasafn Íslands tryggt til næstu fimmtán ára.

Í samningnum er miðað við að húsnæðið verði tilbúið að einu ári liðnu; eða 1. mars 2014. Leigan er 80 milljónir króna á ári til 2028.

Eins og kunnugt er hafa á síðustu mánuðum farið fram samningaviðræður á milli Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins, auk fjármálaráðuneytisins, um leigu ríkisins á Perlunni sem lausn við húsnæðisvanda Náttúruminjasafnsins. Viðræðurnar byggja á samþykkt borgarstjórnar frá 18. desember 2012 um kaup borgarinnar á Perlunni af Orkuveitu Reykjavíkur. Leigan er forsenda kaupanna á húsnæðinu.

Stefnt er að því að leggja leigusamninginn fram til samþykktar á næsta fundi borgarráðs; jafnframt er stefnt að því að leggja fram kaupsamning um Perluna til kynningar, segir í drögum leigusamnings. Í kjölfar undirritunar samnings er miðað við að ljúka viðræðum við OR um kaup borgarinnar á Perlunni og leigu á einum vatnstanki, í samræmi við áðurnefnda samþykkt borgarstjórnar. Kaupverð Perlunnar er 950 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×