Innlent

Birta ábendingar frá neytendum á vefnum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Neytendur geta sett ábendingar inn á vef ASÍ.
Neytendur geta sett ábendingar inn á vef ASÍ.
„Fór í blóðprufu 28. desember 2012, þá kostaði hún 1.800 krónur, þurfti aftur í blóðprufu í gær 26. febrúar 2013 og þá kostaði hún 1.900 krónur. Ríkið að standa vörð um heilbrigðiskerfið eða hvað!"

Ofangreind ábending er ein af mörgum sem almenningur hefur sett inn á vefinn www.vertuaverdi.is sem opnaður var núna í vikunni. Um er að ræða átak aðildarfélaga ASÍ sem ætlað er að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar.

„Ábendingarnar koma úr ýmsum áttum og varða opinbera aðila, þjónustufyrirtæki og verslanir. Í sumum tilfellum er um umtalsverðar hækkanir að ræða," segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, og lýsir um leið yfir ánægju sinni með viðbrögð almennings.

Hún segir ekki verða kannað í öllum tilvikum hvort neytendur fari rétt með. „Þetta er fyrst og fremst hugsað til að veita aðhald og skapa umræðu en við munum fylgjast með því að velsæmis sé gætt."



Henný bendir á að þegar verðbólgan sé mikil og verðlag óstöðugt sé enn erfiðara fyrir neytendur að fylgjast með. „Það verður hætta á ákveðinni deyfð hjá þeim og auðveldara fyrir fyrirtæki að koma að hækkunum sem kannski er ekki hægt að réttlæta með beinum hætti. Þetta verður svolítið frítt spil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×