Innlent

Brottkast aflagt á næstu árum

Svavar Hávarðsson skrifar
Allt að fjórðungi alls afla skipa ESB er kastað aftur frá borði. Um milljónir tonna er að ræða á síðustu árum.
Allt að fjórðungi alls afla skipa ESB er kastað aftur frá borði. Um milljónir tonna er að ræða á síðustu árum.
Sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins (ESB) hafa náð samkomulagi um að brottkast á fiski verði aflagt í áföngum á tímabilinu frá janúar 2014 til ársins 2019. Samþykkt Evrópuþingsins þarf til að samkomulagið hljóti gildi en fréttaskýrendur telja það aðeins formsatriði.

Bannið tekur á næsta ári til uppsjávarfisks, eins og kolmunna og síldar. Brottkast á bolfiski kemur til síðar á fimm ára aðlögunartíma.

Samkomulagið er túlkað sem risaskref í rétta átt til að laga sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það er afstaða norðlægra landa innan ESB, sem hafa keyrt málið áfram í andstöðu við Spán, Portúgal og Frakkland, sem hafa spyrnt við fótum um árabil. Fyrrnefndar þjóðir náðu fram undanþágum, til dæmis heimildum til brottkasts á úthafsveiðum, en menn hafa efasemdir um að undanþágur verði hluti af lokagerð samningsins.

Afstaða háttsettra embættismanna er höfð til vitnis um það en María Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hefur lýst því yfir að ótækt sé að kasta fiski.

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, segir í fréttatilkynningu þarlendra stjórnvalda að samkomulagið marki endi á „30 ára hneyksli", og að samkomulagið sé raunhæft; milljónum tonna verði ekki lengur hent frá borði. Almennt er talið að fjórðungi veidds afla innan lögsögu ESB sé kastað aftur í sjóinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×