Innlent

Mokveiði við Vestmannaeyjar

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Skipstjórinn á Álsey taldi alls ellefu loðnuskip á veiðum í grennd við Vestmannaeyjar í gærkvöld.
Skipstjórinn á Álsey taldi alls ellefu loðnuskip á veiðum í grennd við Vestmannaeyjar í gærkvöld. Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
„Þetta er bara kapphlaup við tímann núna. Það skiptir bara máli að ná sem mestu," segir Jón Axelsson, skipstjóri á loðnuskipinu Álsey VE 2. Álsey var á leið til Þórshafnar í gærkvöld eftir góða veiði undanfarna daga við Vestmannaeyjar. Alls voru ellefu loðnuskip að veiðum á svæðinu í gærkvöld.

„Það hefur gengið mjög vel. Við komum seinnipartinn á mánudag, köstuðum þrisvar og fengum 800 tonn og köstuðum þrisvar í dag [í gær] og fengum þúsund. Það var fínt á sjó og mikið af loðnu," segir Jón.

Jón segir ómögulegt að segja til um hvenær náist að veiða upp í kvótaheimildir. Vonandi verði veitt sem lengst, alveg fram að páskum.

„Þetta eru svo miklar heimildir núna og þá er auðvitað gott að fá svona góða veiði," segir hann. „Það hefur verið leiðindatíð, þrálátar sunnanáttir og við alltaf uppi í fjöru. En það spáir betra fram undan."

Áhöfnin á Álsey samanstendur af þrettán mönnum. Búist er við að skipið komi í kvöld til Þórshafnar, þar sem farminum verður landað. Svo verður haldið aftur til veiða á fimmtudagsmorgunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×