Innlent

Landspítalinn kærður vegna samskipta

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Logaland telur samskipti LSH við samkeppnisaðilann ekki standast lög.
Logaland telur samskipti LSH við samkeppnisaðilann ekki standast lög. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrirtækið Logaland ehf. hefur kært innkaupadeild Landspítalans (LSH) til Samkeppniseftirlitsins vegna vinnubragða í innkaupum á heilbrigðisvörum. Ástæðan er tölvupóstssamskipti LSH við fyrirtækið Hátækni, þar sem verð samkeppnisaðilans er borið saman við verð Hátækni og eru forsvarsmenn Hátækni beðnir um lækka verðið til að LSH kaupi af þeim.

„Getur þú ekki pressað þetta eitthvað meira niður fyrir okkur?" segir meðal annars í einu bréfanna frá innkaupadeild spítalans til Hátækni. Þann 17. október 2011 sendi starfsmaður innkaupasviðs LSH forsvarsmanni Hátækni töflu með verðsamanburði á vörum fyrirtækisins og Logalands. Þar sést að tilboð Logalands er rúmlega 220 þúsund krónum lægra en það frá Hátækni.

Í tilkynningu frá Heilbrigðisvörum, sem rekur Logaland ehf., segir að vinnubrögð innkaupadeildar standist að mörgu leyti hvorki ákvæði samkeppnislaga né ákvæði laga um opinber innkaup og skerði því samkeppni með alvarlegum hætti.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem innkaupadeild spítalans er gagnrýnd fyrir vinnubrögð sín. Nýlega féll úrskurður þar sem stöðvuð voru kaup á tækjum til nýrrar kjarnarannsóknarstofu fyrir meira en sex hundruð milljónir og lagt fyrir Ríkiskaup að auglýsa innkaupin að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×