Innlent

Flugfarþegum fjölgar mikið á næstu árum

Andrew Gordon hjá Airbus kynnti spá fyrirtækisins um horfur í fluggeiranum fyrir blaðamönnum. Fréttablaðið/GVA
Andrew Gordon hjá Airbus kynnti spá fyrirtækisins um horfur í fluggeiranum fyrir blaðamönnum. Fréttablaðið/GVA
Farþegafjöldi hjá flugfélögum heims mun tvöfaldast á næstu fimmtán árum. Á sama tímabili mun flugfarþegum til og frá Norðurlöndunum fjölga um 70% en meira á Íslandi. Þetta er mat flugvélaframleiðandans Airbus sem kynnti fyrir helgi langtímaspá sína um horfur í fluggeiranum fyrir íslenskum fjölmiðlamönnum.

„Á næstu 20 árum gerum við ráð fyrir að á Íslandi verði mesta fjölgun farþega innan Norðurlandanna, eða um 4% árlegri aukningu, og að umferð til hins mikilvæga markaðar Norður-Ameríku aukist um meira en 5% á hverju ári,“ segir Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus.

Gordon segir að flugsamgöngur séu enn vaxtargeiri sem mun á næstu árum og áratugum njóta góðs af hröðum vexti nýmarkaðsríkja. Hann muni valda því að millistéttaríbúum heims fjölgi um 3 milljarða á næstu 20 árum. Þá telur Gordon að hlutfall mannkynsins sem býr í borgum muni áfram stækka á næstu áratugum og bætir við að borgarbúar séu mun líklegri til að nýta sér flugsamgöngur en þeir sem búa í dreifbýli.

Vegna þessa gerir Airbus ráð fyrir að farþegaflugvélum á heimsvísu muni fjölga úr 15.560 árið 2011 í 32.550 árið 2031. Á sama tíma muni fraktflugvélum fjölga úr 1.620 í 2.940. Þá segir Gordon að flugvélar muni á næstu árum verði sífellt sparneytnari en stefnt er að því að minnka útblástur flugvélaflota heimsins um 1,5% á ári.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×