Innlent

Geislafræðingar bíða eftir svari forstjórans

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Katrín Sigurðardóttir
Katrín Sigurðardóttir
Alls hafa 46 geislafræðingar á Landspítalanum (LSH) sagt upp störfum, þar af eru 42 á myndgreiningardeild og fjórir á geisla- og meðferðardeild. Um 80 slíkir sérfræðingar eru á spítalanum í dag, þó ekki allir í fullu starfi.

Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir hópinn hafa óskað eftir fundi með forsvarsmönnum spítalans á mánudag en ekki hafa fengið svör enn.

„Fyrst og fremst þarf að viðurkenna störfin formlega sem slík. Það þarf að koma inn á ýmsar skipulagsbreytingar og að menn fái framgang við faglega þekkingu," segir hún. „En það á alveg eftir að ræða þetta."

Engar fastar kröfur varðandi laun hafa enn komið frá geislafræðingum og Katrín undirstrikar að forsendur þeirra séu afar ólíkar þeim er komu frá hjúkrunarfræðingum.

„Mínir félagar eru mjög þreyttir og hafa verið lengi. En þetta er á öðrum forsendum en deila hjúkrunarfræðinganna og það er allt annað í gangi hjá okkur," segir hún. „Það þarf að breyta fyrirkomulaginu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×