Innlent

Mikið hagræði með nýrri hringleið á sjó

Svavar Hávarðsson skrifar
Flutningar á sjó hafa lengi verið í umræðunni sem hagsmunamál landsbyggðarinnar. Því er nú svarað með nýrri hringleið. fréttablaðið/anton
Flutningar á sjó hafa lengi verið í umræðunni sem hagsmunamál landsbyggðarinnar. Því er nú svarað með nýrri hringleið. fréttablaðið/anton
Flutningafyrirtækið Samskip tekur í þessum mánuði upp nýja siglingaleið frá Vestfjörðum og Norðurlandi beint til Bretlands og meginlands Evrópu. Útflytjendur og innflytjendur á landsbyggðinni komast með þessu í beint samband við markaðssvæði sín í Evrópu. Nýja siglingaleiðin mun draga úr landflutningum með tilheyrandi olíusparnaði og minna álagi á vegakerfið. Mikið hagræði, segir fiskútflytjandi á Ísafirði.

Um nýja hringleið í flutningum er að ræða. Flutningaskip á vegum félagsins fer frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Reyðarfjarðar og þaðan til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum. Frá Rotterdam fer skip félagsins aftur til Reykjavíkur og leggur af stað í nýja hringferð daginn eftir heimkomu. Viðkomustöðum verður hugsanlega fjölgað í framtíðinni.

Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, segir í tilkynningu að verið sé að svara þörf fyrir beinar siglingar frá Vestfjörðum og Norðurlandi, ekki síst með sjávarafurðir inn á helstu markaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu.

Ólafur B. Halldórsson, framkvæmdastjóri Ísfangs á Ísafirði, telur augljóst að ný siglingaleið Samskipa verði styrkur fyrir sitt fyrirtæki og önnur fyrirtæki í útflutningi á svæðinu. „Eins og landið liggur í dag þurfum við að flytja okkar sjávarafurðir landleiðis fyrir skip í Reykjavík með tilheyrandi kostnaði," segir Ólafur sem efast ekki um að um mikið hagræði sé að ræða. „Hættan er hins vegar sú, hugsa ég, að Eimskip byrji á þessu líka. Þá drepa þeir hvor annan og hætta báðir jafnt," segir Ólafur sem segir söguna geyma viðlíka dæmi. „Kakan er einfaldlega ekki svo stór að hún sé til skiptanna."

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir mjög jákvætt að Ísafjörður sé aftur orðinn útflutningshöfn. „Ég bind miklar vonir við þetta og tel að samkeppnisstaða fyrirtækja hér í kring styrkist mjög við þetta," segir Daníel.

Í sama streng tekur Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar. Hún segir nýja siglingaleið styrkja stöðu Norðurlands til mikilla muna, bæði hvað varðar flutninga til og frá höfuðborgarsvæðinu og ekki síður við Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×