Innlent

Aukagreiðsla skerðir bætur

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Einar gunnarsson
Einar gunnarsson
Nýtt fyrirkomulag á útgreiðslu atvinnuleysisbóta skerðir félagslegar bætur þess hóps sem datt af atvinnuleysisbótum um áramót og leitar nú fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögunum.

Dæmi eru um að fólk hafi ekki fengið neinar bætur frá sveitarfélögum í janúar og fái skertar bætur í febrúar. Um 1.400 manns misstu rétt sinn til atvinnuleysisbóta um áramót þar sem þeir höfðu verið þrjú ár eða lengur á bótunum. Einar Gunnarsson er einn þeirra.

Hann hefur sótt um fjölda starfa síðan hann missti vinnuna en ekkert fengið. Hann segir erfitt fyrir mann á sínum aldri að fá vinnu en hann er 63 ára gamall.

Einar fékk greiddar fullar atvinnuleysisbætur 31. desember, 167 þúsund krónur fyrir skatt, 146 þúsund þegar allt var frá dregið. Þá lagði Vinnumálastofnun 36 þúsund krónur inn á reikning hans 7. janúar, eftirstöðvar af rúmlega 60 þúsund króna greiðslu sem hann átti inni samkvæmt nýja fyrirkomulaginu.

Vinnumálastofnun greiðir út bætur eftir á en fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er greidd út fyrir fram.

Einar á rétt á rúmlega 163 þúsund krónum á mánuði í fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Allar tekjur sem hann hefur skerða þá upphæð hins vegar, þar með talið atvinnuleysisbæturnar. Einar fær því enga fjárhagsaðstoð í janúar frá Reykjavík og aðeins 99.303 krónur í febrúar.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segist hafa heyrt af því að komið hafi upp skerðing á bótum þeirra sem þurfa að sækja fjárhagsaðstoð til sveitarfélaganna eftir að hafa misst rétt á atvinnuleysisbótum. Það geti verið vandamál þar sem þeir hafi ekki átt von á þeirri skerðingu.

Einar er að vonum ósáttur við fyrirkomulagið. „Manni finnst að samfélagið sé að hafna manni, að maður sé einskis nýtur pappír og það sé eins gott að maður fari nú helst fljótlega að fara yfir móðuna miklu. Þá er enginn kostnaður við mann," segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×