Skoðun

Af snjógöngum, snjóhengjum og köldum kveðjum

Eyjólfur Þorkelsson skrifar
Bestu loforð stjórnmálamannsins eru þau sem sífellt má endurnýta, veita kjósendum vonarglætu en auðveldara er að japla á en ganga í. Gulrót rétt utan seilingar. Afnám verðtryggingar, endurskoðun kvótakerfisins og jarðgangaframkvæmdir. Kannist þið við rulluna?

Í orði kveðast stjórnmálamenn vilja rétta hlut landsbyggðarinnar, efla þar minni og meðalstór fyrirtæki og auðvelda ungu fólki að setjast þar að og vinna fyrir sér. Það er vitað hvað þarf: Trausta heilsugæslu. Metnaðarfulla grunnmenntun. Öruggar samgöngur. Hins vegar er enginn skilningur á hvernig þessir þættir reiða sig hver á annan, sérstaklega samgöngurnar. Af hverju teljast tryggar samgöngur ekki til velferðarmála?

Snjógöng

Á Austurlandi er traust heilsugæsla og metnaðarfull grunnmenntun en samgöngur er ekki stólandi á. Hér eru hættulegustu fjallvegir landsins, Oddsskarð og Fjarðarheiði. Ef ekki má treysta á að Fjarðarheiði sé fær, skipta engu gæði grunnþjónustunnar handan hennar. Þess vegna eru tryggar samgöngur velferðarmál!

Í sérnámi mínu í heimilislækningum vinn ég á Akureyri en líka á Egilsstöðum. Mér leyfist ekki sá lúxus að halda tvö heimili og hef því sest upp á múttu og pápa á Seyðisfirði. Þau eru teljandi á fingrum mér þau skipti er ég hef ekki lent í vetrarhremmingum á Fjarðarheiði, hef ég þó ekið hana alla mína ævi og gæti ratað blindandi. Sem verður oft raunin, þegar kófar í snjógöngunum og skyggnið vart meira en nemur húddinu.

Veðurmæli Vegagerðarinnar er ekki treystandi á; veður og vindar eru sjaldnast eins á Norðurbrún og í Mjósundum 10 km austar – hálfum kílómetra ofan við sjávarmál. Að vita ekki hvort eða hvenær og þá hversu velktur maður mætir sjúklingum dagsins er óþolandi!

Snjóhengja

Góð jarðgöng eru samgöngubót til framtíðar. Fjárfesting, en dýr. Getur hagkerfi, hnípið undir billjón króna snjóhengju fjárfest í jarðgöngum? Já – bjóðum eigendum aflandskrónanna að fjárfesta í jarðgöngum og rekstri þeirra; Holu ohf. Snjóhengjan notuð til að fjármagna eins mörg jarðgöng og hægt er, notendur greiða fyrir að aka um þau og ríkið lofar að kaupa krónubréfaeigendur út úr fyrirtækinu á tuttugu árum eða svo með hóflegri ávöxtunarkröfu.

Hagur krónubréfakóna – tryggt að þeir fái fé sitt til baka í fyrirsjánlegri framtíð og öll ávöxtun er betri en engin ávöxtun. Hagur ríkisins – fjárfestir í innviðum samfélagsins og léttir á sama tíma þrýstingi á hagkerfið. Hagur landsbyggðarinnar – ómetanlegt.

Kaldar kveðjur

Ég er Austfirðingur. Hér vil ég búa, hér vil ég vinna og hér vil ég efla samfélagið. Þó er kannski svo að ráðamönnum og fólki almennt finnist broslegt að vel menntað ungt fólk sækist í að búa austan við Úlfarsfell; fásinna að það vilji skila einhverju í þorpið sem ól það upp. Óþarfi að auðvelda þeim að velja að búa úti á landi.

Sé ekki meiningin að senda okkur svo kaldar kveðjur þá verður að endurskoða hugarfarið til samgöngubóta, sérstaklega jarðganga. Ef ekki þá geta okkar kveðjur líka verið kaldar, einkum á kjördag.




Skoðun

Sjá meira


×