Erlent

Tyggjó var bannað í Singapúr árið 1992

Tyggjó
Tyggjó
Mikill óþrifnaður af völdum jórturleðurs hafði um árabil verið ráðamönnum í Singapúr þyrnir í augum áður en til þess kom að innflutningur og sala þess var alfarið bönnuð árið 1992, að viðlögðum fésektum.

Fram kemur í æviminningum Lee Kuan Yew, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, að hann hafi þegar árið 1983 hugleitt bann, vegna viðhaldskostnaðar í háhýsum og hreinsikostnaðar á götum úti og í almenningsvögnum. Á þeim tíma hafi bann hins vegar þótt of róttæk aðgerð. Kornið sem fyllti mælinn var svo þegar skemmdarvargar klíndu tyggjói á skynjara hurða nýrrar tegundar neðanjarðarlesta sem teknar voru í notkun í byrjun tíunda áratugarins. Þótt dæmin væru ekki mörg var kostnaður mikill vegna röskunar á lestarsamgöngum og viðgerða. Í kjölfarið var tyggjó gert útlægt.

Síðari breytingar á lögunum hafa heimilað sölu tannhreinsi- og nikótíntyggjós í apótekum, en ávísun læknis þarf til að fá það keypt. Áfram liggja við því háar sektir að henda ekki tyggjói í ruslið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×