Skoðun

Reykjavíkurleikarnir eru komnir til að vera

Reykjavíkurleikarnir, Reykjavík International Games, lýstu svo sannarlega upp janúarmánuð hér í höfuðborginni. Leikarnir, sem nú voru haldnir í sjötta sinn, gengu frábærlega og umgjörð leikanna var í alla staði til fyrirmyndar. Fjölmörg Íslandsmet voru slegin og góður árangur náðist í hverri keppnisgrein.

Leikarnir eru alltaf að auka umfang sitt. Í ár voru keppendur um 2.500, þar af tæplega 400 erlendir keppendur frá 27 þjóðlöndum. Það er því óhætt að segja að leikarnir skipti miklu fyrir Reykjavíkurborg sem eftirsóknarverður ferðamannastaður, bæði á sumrin og veturna.

Það er gaman að sjá hvernig fræðslu og skemmtun er blandað saman við mótshald Reykjavíkurleikanna. Dæmi um slíkt eru vel heppnaðar málstofur, sundlaugarpartý, glæsileg danskeppni í Laugardalshöll og hjólasprettur á Skólavörðustígnum. Á lokahátíðinni hélt síðan Páll Óskar uppi stuðinu með dansleik eftir verðlaunaafhendinguna.

Í ár var keppt í tveimur fleiri keppnisgreinum en í fyrra, alls 18 greinum, og fjölbreytnin er mikil. Á mótum sem þessum gefst íþróttamönnum tækifæri til að ná alþjóðlega viðurkenndum árangri sem veitir aðgang að stórmótum eins og heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Í mörgum tilvikum voru Reykjavíkurleikarnir í ár liður í undirbúningi íslensks íþróttafólks þar sem stefnan er sett á Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra sem fram fara í Ríó 2016.

Mannvirki til íþróttaiðkunar í Reykjavík eru til fyrirmyndar og það markar okkur vissa sérstöðu að geta boðið upp á íþróttaaðstöðu, gistirými og aðra þjónustu í göngufæri. Vel skipulagðir Reykjavíkurleikar, íþróttaaðstaðan og ekki síst góðir gestgjafar gera það að verkum að erlendir keppendur vilja koma aftur og hróður Íslands og Reykjavíkur sem gestgjafa stórra íþróttaviðburða eykst.

Reykjavíkurleikarnir krefjast mikils undirbúnings og vil ég þakka Íþróttabandalagi Reykjavíkur og sérsamböndum Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) fyrir frábæra vinnu og gott samstarf. Íþrótta- og tómstundarráð (ÍTR) og Reykjavíkurborg eru stolt að því styðja við og vera hluti af leikunum. Einnig vil ég þakka öðrum stuðningsaðilum leikanna fyrir sitt framlag.

Það að ná árangri krefst hæfileika en umfram allt ástríðu og vinnusemi. Það getum við með sanni sagt um okkar frábæra íþróttafólk en einnig um þá sem að íþróttastarfinu standa.

Íþróttirnar glæða svo sannarlega borgina lífi og krafti!




Skoðun

Sjá meira


×