Lífið

Heillaði Breta með íslensku uppistandi

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
Snjólaug hefur alltaf haft gaman af uppistandi.
Snjólaug hefur alltaf haft gaman af uppistandi.
"Ég gerði aðallega grín að sjálfri mér, en svo tók ég kreppuna á Íslandi líka fyrir og skaut á Icesave. Bretarnir tóku því alls ekki illa og hlógu að bröndurunum um að við hefðum stolið peningunum þeirra," segir Snjólaug Lúðvíksdóttir uppistandari.

Snjólaug tók á dögunum þátt í uppistandskeppninni Laughing Horse í London þar sem leitað er að besta nýliða ársins. Hún sigraði í sínum riðli í undankeppninni og er því komin áfram í aðra umferð ásamt rúmlega 350 öðrum, en um 1.500 manns skráðu sig til leiks í upphafi. Snjólaug hefur aldrei áður tekið þátt í uppistandskeppni og reyndar hafði hún aldrei verið með uppistand áður en hún tók þátt í keppninni. "Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á uppistandi og horfi mikið á það, en hef aldrei þorað að prófa sjálf. Svo sá ég þessa keppni auglýsta og ákvað að slá til. Mér fannst svo táknrænt að byrja nýja árið á því að hlaupa svona út úr þægindahringnum," segir hún og hlær. "Þetta gekk í það minnsta vel í fyrstu tilraun, en maður veit ekki hvað gerist hér eftir. Mér fannst þetta rosalega skemmtilegt og gæti alveg hugsað mér að leggja þetta fyrir mig í meiri mæli í framtíðinni," bætir hún við.

Þegar Snjólaug skráði sig til keppni var hún ekki með neitt efni tilbúið til að nota í uppistandið, svo hún þurfti að setjast niður og byrja að skrifa. "Ég fékk fjórar mínútur á sviðinu en þegar ég byrjaði að skrifa komst ég á algjört flug og endaði með efni fyrir þrjátíu mínútna uppistand, svo ég þurfti að velja úr," segir hún.

Þær eru fáar íslensku konurnar sem hafa lagt fyrir sig uppistand og raunar eru töluvert fleiri karlmenn í bransanum á heimsvísu. Aðspurð segist Snjólaug hafa lesið að karlmenn væru almennt viljugri til að gera sig að fífli en konur. "Við stelpurnar getum samt verið algjör fífl líka, það er alveg á tæru."

Snjólaug flutti til London fyrir þremur árum til að leggja stund á nám í skapandi skrifum. Síðan hún kláraði námið hefur hún verið að vinna þar ytra og er nú að undirbúa tökur á stuttmynd sem hún skrifaði og hlaut styrk fyrir frá Evrópusambandinu. Á meðan kvikmyndagerðin er í undirbúningi vinnur hún svo fyrir sér sem þýðandi. "Svona til að eiga fyrir leigunni," segir hún hlæjandi.

Virt keppni og til mikils að vinna
Merki Laughing Horse.
Keppnin sem Snjólaug tók þátt í er hluti af Laughing Horse-batteríinu sem var fyrst stofnað árið 1998 og er risastórt í grínheiminum í Bretlandi. Þetta er hálfgert grínfélag sem heldur uppistandskvöld á klúbbum um alla London, í Brighton og víðar á Bretlandseyjum. Félagið býður einnig upp á námskeið í uppistandi og hefur uppistandara á sínum snærum sem hægt er að bóka í alls kyns viðburði og veislur.

Keppnin sem Snjólaug er þátttakandi í, Laughing Horse New Act of the Year Competition, hefur verið haldin árlega frá árinu 2001 og er mjög virt í heimi uppistandara. Mörg þekkt nöfn hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni og má þar meðal annars nefna uppistandarana Greg Davies og Russell Kane sem eru báðir vel þekktir innan bransans.

Til mikils er að vinna. Auk þess sem sigur í keppninni leiðir af sér mikla eftirspurn og launaða vinnu þá hlýtur sigurvegarinn verðlaun að verðmæti hátt í eina milljón króna. Þar á meðal er ávísun upp á 2.000 pund, sem samsvarar rúmum 400.000 íslenskra króna





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.