Innlent

Ferðamenn lokkaðir með fornum goðum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hjónin í Kaffi Loka eru í áhugahópi sem telur skreytingar á götuhornum í Goðahverfinu mundu skerpa á því hverjir varðveittu sagnir af norrænum goðum og laða fólk að hverfinu.Fréttablaðið/Stefán
Hjónin í Kaffi Loka eru í áhugahópi sem telur skreytingar á götuhornum í Goðahverfinu mundu skerpa á því hverjir varðveittu sagnir af norrænum goðum og laða fólk að hverfinu.Fréttablaðið/Stefán
„Nú þegar er farið að nota æsina í kvikmyndir í Ameríku og því enn frekari ástæða til að skerpa á því hverjir varðveittu sögurnar um hinn forna sið," segir áhugahópur sem vill samkeppni um myndskreytingar gatna í svokölluðu Goðahverfi.

Að því er kemur fram í erindi Goðahópsins til skipulagsyfirvalda í Reykjavík teljast fimmtán götur til Goðahverfisins. Um er að ræða hverfið sunnan Skólavörðustígs. Þar eru götur sem bera nöfn hinna fornu ása úr norrænni goðafræði. Má þar nefna Lokastíg, Óðinsgötu, Þórsgötu, Freyjugötu og Baldursgötu.

„Fyrstu hugmyndir eru að setja einhverjar upplýsingar, myndskreytingar, styttur eða eitthvað í þeim dúr á horn gatna í hverfinu," er útskýrt í bréfi Goðahópsins, sem kveður ekki hægt að reikna kostnaðinn fyrr en hugmyndasamkeppni ljúki.

„Hins vegar var mat manna á fundi Goðahópsins að samkeppnin sem slík kostaði á bilinu 2 til 3 milljónir króna," segir hópurinn, sem óskar eftir að borgin kosti keppnina. „Fjármögnun framkvæmda verður síðan seinni tíma mál, en gert er ráð fyrir því að nokkrir aðilar komi að því, til dæmis fyrirtæki á svæðinu, styrktarsjóðir og Reykjavíkurborg."

Goðahópurinn minnir á að snemma hafi götur í Reykjavík verði nefndar „til heiðurs hinum fornu goðum" og að ástæða sé til að minna á hvaðan þessi heiti séu komin. „Börn og fullorðnir úr hverfinu kenna sig frekar við hverfið ef því er haldið á lofti," segir í erindi hópsins, sem kveður fleiri merkingar mundu ýta undir að leiðsögumenn fylgdu íslenskum og erlendum ferðamönnum um hverfið og segðu af því sögur. „Þetta mun því hafa aðdráttarafl fyrir hverfið og Reykjavík sem ferðamannaborg. Þetta gæti líka orðið fordæmi fyrir önnur hverfi að hressa upp á ímynd sína."

Goðahópurinn vill að Höfuðborgarstofa efni til hugmyndasamkeppni með listamönnum og auglýsingastofum. Miða yrði við myndskreytingar á götuhornum og ef til vill margmiðlunarupplýsingar um snjallsíma.

Í Goðahópnum eru leiðsögumennirnir Steingrímur Gunnarsson, Friðrik Brekkan og Bjarni Reynarsson, Þórólfur Antonsson og Hrönn Vilhelmsdóttir sem eiga Kaffi Loka, borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson, Valdís Árnadóttir hjá Norræna félaginu og Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Samtaka um söguferðaþjónustu. Erindi hópsins var vísað til meðferðar hjá skrifstofustjóra á síðasta fundi skipulagsráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×