Innlent

Hálfgildings eignaupptaka á húsi listamannsins

Jakob Bjarnar skrifar
Daði Guðbjörnsson, listamaður, er ósáttur við fyrirhugaða byggingu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Daði Guðbjörnsson, listamaður, er ósáttur við fyrirhugaða byggingu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Íbúasamtök Vesturbæjar mótmæla harðlega fyrirhugaðri byggingu rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar við Mýrargötu. Ef byggingin rís verður hús Daða Guðbjörnssonar listamanns sem garðskúr við kirkjuna og er hann ekki sáttur við það.

Íbúasamtök Vesturbæjar létu gera mynd sem á að sýna rétt hlutföll byggingar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar við Mýrargötu. Samtökin eru ókát með bygginguna og hafa skorað á skipulagsráð Reykjavíkur að finna aðra lóð en á Mýrargötu fyrir rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Ef myndin er skoðuð má sjá að stór og sérstæð byggingin mun rísa við hlið húss Daða Guðbjörnssonar listamanns, sem stendur við Brunnstíg 5.

Listamanninum finnst eitt og annað sem megi athuga í tengslum við kirkjuna sem slíka, til dæmis framgöngu hennar í máli Pussy Riot. Og áfram má telja. „Þeir eru bara í Gamla testamentinu.“ Daða finnst byggin ekki eiga heima þarna á hafnarsvæðinu, sem er sögulega merkilegt. Þarna voru til dæmis rifnar merkir skúrar, sennilega þeir merkilegustu á Reykjavíkursvæðinu.

Það er ekki eitt, það er allt að mati Daða sem hefur búið þarna ásamt fjölskyldu sinni í rúman áratug. Hann segist svo sem ekkert á förum þó byggingin rísi og hús hans verið við það sem kofi meðhjálparans, það sé svo seigt í sér og hann öllu vanur. Sumir borgarbúar eru jafnari en aðrir og eitt og annað hafa íbúar svæðisins mátt þola þegar skipulagsslys eru annars vegar. Daði segir reyndar samningaviðræður standa yfir um að kirkjunni verði fundinn annar staður.

Nokkrir einstaklingar mótmæla einnig kirkjubyggingunni, segja hana meðal annars of stóra og óttast bílastæðaskort. En, þeir eru einnig margir sem lýsa yfir stuðningi sínum við bygginguna, segja hana fagra en Daði er því ekki sammála. „Mér finnst þetta forljót bygging. Og væri betur komin annars staðar. Ég sé fyrir mér bygginguna í einhverjum fallegum trjálundi. Það verður „spreyjað“ á hana þarna eins og aðrar byggingar. Ég hef séð fallegar trékirkjur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar en þessi er ekki falleg. En, hvað veit ég? Ég er bara listamaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×