Skoðun

Hæfust?

Í bók sinni Lean In ræðir Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri hjá Facebook, um þær hindranir sem konur verða fyrir á vinnustað og staðalímyndir þeirra. Hún tekur dæmi úr eigin reynslubanka og staðhæfir að frá því að við fæðumst sé komið fram við kynin á mismunandi máta.

Sheryl hefur í starfi sínu komið að ráðningu starfsfólks hjá nýsköpunarfyrirtækjunum Google og Facebook, sem bæði hugsa út fyrir boxið og eru framarlega á sínu sviði. Á báðum stöðunum upplifði hún mismunandi væntingar til kvenna og karla og að staðalímyndir höfðu áhrif. Henni fannst hún því þurfa að stíga fram og ekki bara vekja athygli á viðfangsefninu heldur gera eitthvað í því.

Óttinn við að stíga framHún fór að ræða þetta opinberlega og var gagnrýnd harkalega fyrir að nota aðstöðu sína og tala eingöngu um kvennamál – sem vakti athygli hennar enn fremur á málefninu því hún talaði margfalt meira opinberlega um vinnutengd málefni en kvennamálefni nokkurn tímann.

Málefni Lean In er nefnilega ekki eingöngu ætlað konum heldur fólki sem vill jöfn tækifæri á vinnumarkaði þannig að kraftur karla og kvenna sé virkjaður jafnt og að við viðurkennum að það séu hindranir á vegi kvenna til að svo megi verða. Fólk sem vill gegnsætt samfélag, nýta bestu hæfileika í hvert verk og gera vinnustaði og störf aðgengileg fyrir bæði kynin. Hljómar einfalt, ekki satt?

Á Íslandi veigrar fólk af báðum kynjum sér enn þá við að stíga fram og ræða þessi mál af ótta við að vera talið einhver óskilgreind jafnréttis-staðalímynd. Umræðan um stjórnarkvótann og hlutfall kvenna í forstjórastólum og sem næstráðendur eru dæmi um það. Mýtan um að konur séu miklu tregari til að gefa kost á sér í viðtöl í fjölmiðlum er einnig stórgott dæmi um það. En hvað veldur?

Konur fá á sig spurningaflóðShelley Correll, prófessor í félagsfræði við Stanford-háskóla, staðhæfir að staðalímyndir og hlutdrægni á vinnustað séu miklu algengari en við gerum okkur grein fyrir.

Rannsókn þessu tengd þar sem sama ferilskráin var send út þannig að helmingurinn var með karlmannsnafni og hinn helmingurinn með kvenmannsnafni leiddi í ljós sláandi mun. 79 prósent þeirra sem fengu karlmannsnafnið töldu hann hæfan en eingöngu 49 prósent þeirra sem fengu kvenmannsnafnið töldu hana hæfa. Þá voru fjórum sinnum fleiri athugasemdir og spurningar til kvenumsækjandans en karlumsækjandans þar sem farið var fram á frekari sönnun á ferli hennar og verkum. Athyglisvert?

Ræðum og viðurkennum staðalímyndir kynjanna. Gefum gaum að mögulegri hlutdrægni því áhrifin eru mismunandi kröfur og staðlar sem engum eru í hag.




Skoðun

Sjá meira


×