Innlent

Ármann Kr: Fjárframlög til framhaldsskóla duga ekki til

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
„Ég veit að þeir tóku til í sínum rekstri og stóðu sig mjög vel þar," segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, en bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna þess að gert er ráð fyrir því að Menntaskólinn í Kópavogi verði rekinn með 35 milljón króna halla á næsta rekstrarári.

Ármann segir ástæðuna ekki vera þá að skólinn sé illa rekinn, þvert á móti hafi skólinn tekið vel til í rekstri sínum fyrir allnokkru. „Vandamálið er að þrátt fyrir það, að skólinn hafi hagrætt mjög vel í sínum rekstri, þá er þetta samt staðan," segir Ármann og bætir við að þetta sé áhyggjuefni.

„Vandamálið eru auðvitað of lítil fjárframlög," segir hann og bendir í þessu samhengi á að áhyggjur bæjarráðs Kópavogs séu líklega ekki einsdæmi í sveitarfélögum á Íslandi; sama staðan sé uppi annarstaðar, enda framhaldsskóla landsins reknir af ríkinu.

Ármann segir þó ekki mikinn meiningarmun á meirihluta bæjarráðs og minnihlutans. Hann bendir á að í bókun minnihlutans komi fram það sjónarmið að ekki verði gengið lengra í niðurskurði í þessum efnum.


Tengdar fréttir

Bæjarráð Kópavogs lýsir yfir áhyggjum vegna fjárhagsstöðu MK

Meirihluti í bæjarráði Kópavogs samþykkti í gær ályktun þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að stjórn Menntaskólans í Kópavogi hefðu gert áætlun fyrir árið 2013 með 35 milljón króna halla. Í ályktuninni segir meðal annars að slíkt geti skapað mikinn rekstrarvanda í framtíðinni. Svo segir orðrétt: "Þá eru gerðar óraunhæfar kröfur um sértekjur skólans eins og fram hefur komið hjá stjórninni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×