Innlent

Sátt milli verktaka og Hraunavina

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hraunavinir tóku sér stöðu í Gálgahrauni í morgun og stöðvuðu framkvæmdir.
Hraunavinir tóku sér stöðu í Gálgahrauni í morgun og stöðvuðu framkvæmdir. Mynd/GVA
Sátt hefur tekist á milli verktaka nýs vegar í Gálgahrauni á Álftanesi og Hraunavina sem stöðvuðu framkvæmdir í morgun. Sáttin felst í því að verktakinn, ÍAV, mun hverfa frá framkvæmdum í sjálfu Gálgahrauni en þess í stað snúa sér að öðrum framkvæmdum sem ekki hafa óafturkræf áhrif í Gálgahrauni.

Ómar Ragnarsson, einn meðlima Hraunavina sem staðið hafa vaktina í dag og hindrað framkvæmdir, segir að ekki séu fyrirhugaðar frekari framkvæmdir í Gálgahrauni fyrr en eftir helgi. Hraunavinir ætla engu að síður að fylgjast grannt með stöðu mála og verða á vakt, dag og nótt, næstu daga.

Hraunavinir fóru í dag á fund Vegamálastjóra og óskuðu þess að framkvæmdum yrði frestað þar til að niðurstaða væri komin á lögbannskæru lögð hefur verið fram vegna framkvæmdanna. Ómar segir í samtali við Vísi að Vegamálastjóri hafi afdráttarlaust hafnað beiðni Hraunavina.

„Það var mjög athyglisvert svar sem vegamálastjóri gaf frá sér. Ég spurði hvort hann hefði leitt hugann að því hvað myndi gerast ef þeir myndu ráðast í framkvæmdir en síðan tapa málinu. Vegamálastjóri sagðist ekki hafa velt því fyrir sér og ekki ætla að hugsa út í það. Hann telur sig vera með unnið mál í höndunum,“ segir Ómar sem blöskrar þetta viðhorf Vegamálastjóra.

Það kemur væntanlega í ljós á næstu dögum hvort að lögbannskrafa Hraunavina á framkvæmdir í Gálgahrauni muni ná fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×