Innlent

Varðskipið Þór aðeins á sjó í 80 daga á árinu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Varðskipið Þór kom til landsins í október 2011.
Varðskipið Þór kom til landsins í október 2011. Mynd/Daníel Rúnarsson.
Varðskipið Þór hefur einungis verið á sjó í 80 daga af þeim 260 sem liðnir eru af árinu. Árið 2012 var varðskipið samtals 125 daga á sjó en skipið var ekki í rekstri í þrjá mánuði það ár vegna vélaskipta í Noregi.

Varðskipinu er ætlað að sinna stærri björgunarverkefnum og viðbúnaði sem minni og eldri skipin Ægir, Týr og Baldur ráða ekki við. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir þennan fjölda úthaldsdaga Þórs vera óásættanlegan.

„Við hjá Sjómannasambandi Íslands höfum hingað til lagt höfuð­áherslu á að þyrlusveit gæslunnar sé með fjármagn til að sinna öryggis­málum en hins vegar er óásættanlegt að vera með dýrt og gott skip og gera það ekki út,“ segir Sævar.

Í svörum Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins um rekstur varðskipsins segir að kostnaður við flugdeild gæslunnar hafi farið vaxandi undanfarin ár vegna fleiri í útkalla. Sú fjölgun hafi kallað á endurskipulagningu allra rekstrareininga gæslunnar með tilliti til fjárheimilda stofnunarinnar. Af þeim sökum hafi þurft að draga úr siglingum varðskipsins. 

Varðskipið Þór kom til landsins í október 2011. Kostnaðurinn við smíði skipsins nam á þeim tíma um 30 milljónum evra, eða um 4,8 milljörðum króna að núvirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×