Viðskipti innlent

Þung greiðslubyrði erlendra lána ógnar stöðugleika á Íslandi

Samspil uppgjöra búa gömlu bankanna, þungrar greiðslubyrði á erlendum skuldum á næstu árum og losunar fjármagnshafta er enn helsti áhættuþátturinn sem ógnar fjármálastöðugleika Íslands.

Þetta kemur fram í inngangi Más Guðmundsson seðlabankastjóra í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn hefur birt á vefsíðu sinni.

„Í sem stystu máli felst vandinn í því að miðað við óbreytt gengi nægir fyrirsjáanlegur undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára ekki til að fjármagna samningsbundnar afborganir erlendra lána. Því mun íslenska þjóðarbúið ekki skapa nægan gjaldeyri að óbreyttu gengi krónunnar til að losa út krónueignir búa gömlu bankanna til erlendra kröfuhafa og það jafnvel þótt þær yrðu verðlagðar mjög lágt í erlendum gjaldmiðlum," segir Már.

"Á árunum 2014-2017 er áætlað að afborganir innlendra aðila annarra en ríkissjóðs og Seðlabankans af erlendum lánum muni á hverju ári nema að meðaltali um 5½% af landsframleiðslu. Til samanburðar má geta þess að undirliggjandi viðskiptaafgangur, þ.e. það sem í raun var til ráðstöfunar af tekjum þjóðarinnar til að greiða niður erlend lán, nam rétt liðlega 3% af landsframleiðslu á síðasta ári. Vandinn gæti aukist við það, að óbreyttu, að horfur eru á því að þessi afgangur fari minnkandi á næstu árum þar sem þjóðhagslegur sparnaður nær ekki að halda í við aukna fjárfestingu.

Aukinn útflutningur og þjóðhagslegur sparnaður kæmi því að góðum notum til að stuðla að meiri viðskiptaafgangi. En ólíklegt að það dugi til og því ljóst að koma þarf til endurfjármögnunar á þessum skuldum ef forðast á umtalsverðan þrýsting á gengi krónunnar. Hún fæli í sér að skuldirnar yrðu greiddar niður á lengri tíma, annaðhvort með samningum við núverandi kröfuhafa eða með nýjum og lengri lánum.

Að sama skapi liggur ljóst fyrir að gjaldeyrir til að losa úr landi krónueignir gömlu bankanna og núverandi kvikar krónueignir erlendra aðila getur ekki komið af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og krefst því annars gjaldeyrisinnstreymis. Hröð losun þessara eigna, t.d. í tengslum við nauðasamninga, getur þannig ekki átt sér stað nema verðlagning og viðskiptagengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum feli í sér verulega lækkun frá mælingu þessara eigna nú í erlendum gjaldmiðlum miðað við bókfært verð þeirra og álandsgengi krónunnar. Takist vel til varðandi þetta gæti eftirleikurinn við losun fjármagnshafta orðið mun auðveldari fyrir vikið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×