Innlent

Prófkjör aðeins fyrir þá sem greiða félagsgjöld

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Það er óheppilegt að hafa þetta svona og gefur þau skilaboð að þetta sé ekki prófkjör fyrir alla sjálfstæðismenn í Reykjavík,“ segir Teitur Björn.
"Það er óheppilegt að hafa þetta svona og gefur þau skilaboð að þetta sé ekki prófkjör fyrir alla sjálfstæðismenn í Reykjavík,“ segir Teitur Björn. mynd/365
Til þess að mega taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni þurfa félagsmenn að hafa greitt félagsgjöld. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi Varðar í gærkvöldi.

Reglur flokksins kveða á um að borga þurfi félagsgjöld til þess að mega taka þátt í prófkjöri flokksins en hingað til hefur alltaf verið veitt undanþága frá þessari reglu.

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist ekki vita til þess að þessari reglu hafi verið beitt áður, hingað til hafi alltaf verið veitt undanþága.

Hann segir þetta vekja upp ýmsar spurningar um hvernig eigi að fara að framkvæmd prófkjörsins. Það sé ljóst að með þessari ákvörðun sitji ekki allir sjálfstæðismenn við sama borð hvað varðar þátttöku í prófkjörinu.

Hann segir að sjálfstæðisfélögin í Reykjavík hafi ekki öll sama háttinn á við að rukka félagsgjöld, það sé afar misjafnt hversu mikla áherslu hvert félag leggur á það við félagsmenn sína að greiða gjöldin.

„Atkvæðagreiðslan var tæp en um 66% vildu að undanþágunni yrði beitt,“ segir Teitur Björn.

„Ég tel að miðstjórn flokksins þurfi í framhaldinu að skoða hvernig á að framkvæma prófkjörið og rað koma í veg fyrir mismunum flokksmanna. Það er mikilvægt að reglurnar séu skýra og tryggja þarf að framkvæmdin sé hafin yfir allan vafa,“ segir hann.

Teitur Björn segir að óskýrar reglur megi ekki verða til þess að fæla fólk frá því að taka þátt í prófkjöri en hingað til hafi alltaf verið lögð áhersla á það að fá sem breiðastan hóp til að kjósa í prófkjörum og stilla upp listum fyrir kosningar.

„Það er óheppilegt að hafa þetta svona og gefur þau skilaboð að þetta sé ekki prófkjör fyrir alla sjálfstæðismenn í Reykjavík,“ segir Teitur Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×