Innlent

Áreitti unga telpu í strætó

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Eldri stúlkan segir að lögreglan hafi ekki viljað hlusta á lýsingar stúlkunnar af atvikinu og bað hana þess í stað að senda sér skýrslu í gegnum tölvupóst.
Eldri stúlkan segir að lögreglan hafi ekki viljað hlusta á lýsingar stúlkunnar af atvikinu og bað hana þess í stað að senda sér skýrslu í gegnum tölvupóst.
Maður um þrítugt áreitti unga telpu í strætisvagni í Kópavogi í gær. Stúlka um tvítugt skarst í leikinn og kom í veg fyrir að maðurinn gæti haft telpuna með sér á brott úr strætisvagninum. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu.

Unga telpan var ein á ferð í strætisvagninum síðdegis í gær. Hún sat aftarlega í strætisvagninum þegar að inn í vagninn kom maður sem settist fyrir aftan telpuna og fór að ræða við hana. Telpan var í íþróttagalla merktum nafni hennar og ávarpaði maðurinn hana með nafni. Önnur stúlka, um tvítugt, veitti samræðum mannsins við telpuna athygli og sagðist maðurinn þekkja föður ungu telpunnar.

Eftir að hafa rætt við telpuna um stund spurði hann hvort að telpan vildi ekki koma heim með sér þar sem faðir hennar gæti sótt hana eftir vinnu. Við það skarst eldri stúlkan í leikinn og kallaði ungu telpuna til sín. Hún þóttist vera eldri systir hennar. Þær gengu fljótlega saman út úr strætisvagninum en maðurinn veitti þeim eftirför. Hann veifaði meðal annars sælgætispoka til telpunnar og reyndi að lokka hana til sín. Stúlkurnar báðu manninn um að fara en þrátt fyrir það hélt hann áfram eftirför þar til að þær komu að húsakjarna þar sem fleira fólk var á ferli. Maðurinn hafði sig í kjölfarið á brott.

Unga telpan brotnaði saman þegar í húsakjarnan var komið og hágrét. Eldri stúlkan sagði í samtali við Vísi að hún hafi fylgt ungu telpunni þar sem ferð hennar var heitið og hefði svo talað við foreldra hennar í morgun. Hún tilkynnti málið til lögreglu í gærkvöldi. Stúlkan setti inn færslu á Facebook í gærkvöld þar sem hún vakti athygli á málinu.

„Margir eru búnir að spyrja mig á Facebook hvers vegna ég tók ekki mynd af manninum eða hringdi í lögregluna. Ég var hreinlega mjög skelkuð og óttaðist að maðurinn myndi taka til örþrifa ráða og nálgast okkar báðar. Ég ákvað því að reyna að forðast hann eins og ég gat og komast undan honum,“ segir stúlkan sem baðst undan því að koma fram undir nafni.

Stúlkan hafði samband við lögreglu en segir að viðbrögð hennar hafa valdið sér vonbrigðum. Lögreglan vildi ekki hlusta á lýsingar stúlkunnar af atvikinu og bað hana þess í stað að senda sér skýrslu í gegnum tölvupóst. Ekki náðist í lögregluna í Kópavogi við vinnslu þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×