Innlent

Útgjöld til sérstaks saksóknara samtals 3,7 milljarðar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framlag ríkissjóðs til sérstaks saksóknara í fjárlögum síðustu fimm ára nemur samtals 3,7 milljörðum króna. Embættið hefur ákært í tæplega 100 málum á tímabilinu.

Fyrst var gert ráð fyrir sérstökum saksóknara í fjárlögum 2009 þegar útgjöld til embættisins námu 50 milljónum króna. Árið eftir fékk embættið 315 milljónir en síðan voru útgjöld til þess aukin og fékk embættið tæpa 1,2 milljarða árið 2011 og 1,3 milljarða árið 2012. Í fjárlögum þessa árs voru áætluð útgjöld 849 milljónir króna.

Samtals eru þetta 3,7 milljarðar króna sem embættið hefur kostað en það hefur alltaf starfað innan fjárheimilda.

Hér sést svo árangur embættisins (sjá myndskeið með frétt) á sama tíma samkvæmt minnisblaði frá því fyrr í sumar. 134 mál eru nú í rannsókn, 121 eru í ákærumeðferð og þar af hefur verið gefin út ákæra í tæplega 100 málum. 206 mál hafa verið felld niður og rúmlega 50 mál eru í greiningu eða bíða rannsóknar. Þetta eru samtals 512 mál sem embættið hefur haft til skoðunar á tímabilinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er það afstaða nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar að embættið sérstaks saksóknara hafi kostað of mikið og skera þurfi niður. Ekki hafa hins vegar fengist staðfestar tölur en þær liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi sem lagt verður fram í október og endanleg ákvörðun er hjá innanríkisráðherra sem stýrir útgjöldum hjá sínu ráðuneyti en þarf að fylgja niðurskurðarkröfu fjármálaráðherra.

Frá og með 1. janúar sl. var innanríkisráðherra heimilt að leggja niður embættið að fenginni umsögn ríkissaksóknara, samkvæmt lögum um embættið. Samkvæmt minnisblaði frá árinu 2010 á embættið að starfa út næsta ár.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari sagði í samtali við fréttastofu að embættið hefði engar upplýsingar fengið um niðurskurð næsta árs og átti hann von á því að þær upplýsingar lægju ekki fyrir fyrr en við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×