Innlent

Yfirvöldum ekki treyst fyrir uppljóstrunum

Brjánn Jónasson skrifar
Auka þarf vernd uppljóstrara svo fleiri treysti sér til að stíga fram með upplýsingar um misgjörðir segir Suelette Dreyfus.
Auka þarf vernd uppljóstrara svo fleiri treysti sér til að stíga fram með upplýsingar um misgjörðir segir Suelette Dreyfus. Fréttablaðið/vilhelm
Innan við helmingur landsmanna treystir yfirvöldum til að bregðast við uppljóstrunum um alvarlega misbresti innan stjórnsýslunnar, fyrirtækja eða stofnana.

Ný rannsókn sýnir að 47 prósent landsmanna telja bestu leiðina til að upplýsa um misbresti að láta yfirvöld vita. Sams konar rannsóknir sem gerðar hafa verið annars staðar sýna að 51 prósent Breta telur þetta bestu leiðina og 56 prósent Ástrala.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem dr. Suelette Dreyfus, fræðimaður við Melbourne-háskóla í Ástralíu, kynnti á fundi í Norræna húsinu nýverið kemur fram að átján prósent Íslendinga telji uppljóstrara enga góða leið hafa til að ljóstra upp um alvarlega misbresti. Hlutfallið er mun hærra en í samanburðarlöndunum, en tíu prósent Ástrala og tólf prósent Breta eru sömu skoðunar.

Tæpur fimmtungur landsmanna telur bestu leiðina til að svipta hulunni af misbrestum að koma upplýsingum til fjölmiðla, en aðeins sex prósent telja heppilegast að koma upplýsingunum milliliðalaust til almennings í gegnum internetið.

Íslendingar telja almennt að of miklu af upplýsingum sé haldið leyndum fyrir almenningi. Um 63 prósent landsmanna eru þeirrar skoðunar, samanborið við 54 prósent Breta og 50 prósent Ástrala. Þetta bendir til þess að fólk vilji aukið gegnsæi í stjórnsýslunni og víðar, sagði Dreyfus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×