Innlent

Slíkur ólíkindablær á frásögn konu um fjárdrátt að dómur var ómerktur

Hæstiréttur Íslands ómerkti sýknudóm yfir 65 ára gamalli konu sem starfaði í eignastýringu einkabankaþjónustu Kaupþings og var ákærð fyrir að hafa dregið sér fé frá árinu 2004 til 2008. Konan er grunuð um að hafa dregið að sér rúmlega 50 milljónir króna. Það var slitastjórn bankans sem kærði málið árið 2009 eftir bankahrunið.

Konan var ákærð fyrir að hafaí starfi sínu hjá bankanum Kaupþingi dregið sér í 18 tilgreind skipti rúmar 50 milljónir krónur með því að millifæra söluandvirði verðbréfa, þar sem skuldar voru tveir, af bankareikningum kaupenda bréfanna inn á eigin bankareikning.

Fyrir héraðsdómi játaði konan að hafa ráðstafað söluandvirðinu með þeim hætti sem í ákæru greindi inn á bankareikning hjá öðrum aðilanum og nýtt féð í eigin þágu. Hún hélt því á hinn bóginn fram að um að hafi verið að ræða endurgreiðslu á lánum sem hún hafi veitt hinum aðilanum með kaupum á tveimur víxlum. Taldi héraðsdómur að staðhæfing konunnar styddist að nokkru við framburð vitna sem voru fyrirsvarsmenn fyrirtækisins sem lagt var inn á.

Í dómi Hæstaréttar kemur hinsvegar fram að frásögn konunnar um lánveitingar til fyrirtækisins væru ekki studdar neinum gögnum og á henni væri slíkur ólíkindablær að sennilegt mætti telja að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi hafi verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls.

Taldi Hæstiréttur því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×