Skoðun

Líffræði eða uppeldisröskun?

Lýður Árnason skrifar
Formaður ADHD-samtakanna segir í grein nýlega að lengi hafi því verið haldið fram að börn með ADHD væru bara óþekk, skorti aga og um væri að kenna lélegu uppeldi foreldra og almennri leti þeirra til að takast á við foreldrahlutverkið en nú viti flestir að ADHD er taugaþroskaröskun í heila sem stafar af truflun á boðefnum í stjórnstöð heilans.

Mannlífið er einn samfelldur boðefnaflutningur. Þannig eru einkenni ADHD, athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi, allt gamalkunn og þekkt viðbrögð, sérlega á yngri aldursskeiðum. Á þeim síðari myndast svo andhverfan, þ.e. endurtekning, vanvirkni og vanafesta. Þessi hringrás er einatt nefnd þroski, reynsla eða öldrun. En þótt flest okkar renni í þessum meginstraumi eru og verða alltaf frávik. Þessum frávikum fer hins vegar hratt fjölgandi, svo hratt að vart er lengur hægt að tala um frávik. Samfélagið ætti því að gefa orðum formanns ADHD-samtakanna gaum. Netsíða heilsugæslunnar tekur undir með formanninum en þar segir: Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Þetta bendir til þess að kerfið hafi lagt blessun sína yfir líffræðilegar orsakir ADHD og ekki nóg með það heldur er fullyrt að umhverfisþættir spili ekkert inn í. Samt liggur fyrir að þau samfélög þar sem tíðni ADHD er mest hafa líka breyst mest. Þetta eru samfélög hraðans þar sem tími er af skornum skammti og fjölskyldan á undanhaldi. Hafi þetta ekkert að segja varðandi ADHD hefur líffræðin tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Er það sennilegt?

Þegar tveir kostir bjóðast veljum við gjarnan þann skárri. Þannig lætur líffræðileg orsök betur í eyrum en slakt uppeldi. En af hverju þarf að orða það svona? Við tölum um raskanir á hinu og þessu og af hverju þá ekki uppeldisröskun? Er slík röskun nokkuð óeðlileg í því hraðasamfélagi sem við lifum og hrærumst í? Gæti verið að gífurleg aukning á tíðni ýmissa sjúkdóma eins og offitu, sykursýki, geðröskunum og svefnleysi stafi hreinlega af einni allsherjar samfélagsröskun? Á Íslandi nálgast börn greind með ADHD tíu prósentin og fullorðinsgreiningar verða æ tíðari. Meðferðin er gjarnan amfetamínskyld lyf enda ljóst að þau gera gagn. Við getum litið á þetta sem framfarir í greiningu og meðferð og hugsanlega er amfetamín að hasla sér völl sem bjargráð nútímasamfélagsins. Finnst okkur það í lagi?

Ég skrifa þetta til íhugunar og fellst glaður á líffræðilegar orsakir ADHD en ekki sem hinn eina sanna rétttrúnað.




Skoðun

Sjá meira


×