Innlent

Veiðigjöldin verða 10 milljarðar

Í þingsal Bjarni Benediktsson sagði það rangt að ríkisstjórnin sé að kasta frá sér tekjustofnum. Fréttablaðið/Pjetur
Í þingsal Bjarni Benediktsson sagði það rangt að ríkisstjórnin sé að kasta frá sér tekjustofnum. Fréttablaðið/Pjetur
Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum verða tíu milljarðar króna á næsta ári. Það er svipuð upphæð og innheimtist í ár og árið 2012.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá ákvörðuninni í ræðu á Alþingi á þriðjudag þegar hann svaraði fyrirspurn tveggja varaþingmanna Vinstri grænna, þeirra Björns Vals Gíslasonar og Edwards Huijbens, um tekjulækkun ríkissjóðs.

„Það er ágætt að hafa það í huga þegar menn tala um að nýja ríkisstjórnin sé að kasta frá sér tekjustofnunum. Staðreynd málsins er sú að útgerðin í landinu hefur líklega aldrei greitt hærri gjöld og skatta til samfélagsins en einmitt í dag. Aldrei áður,“ sagði Bjarni í ræðu sinni. Bjarni sagði einnig að fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefði haft uppi áform um að hækka veiðigjaldið upp í sextán milljarða á næsta ári, en aldrei látið verða af því.

„Hún skildi þannig við það mál að lögin voru óframkvæmanleg svo að á næsta ári eru nákvæmlega sömu veiðigjöld tekin af þessari ríkisstjórn og hafa verið tekin síðustu tvö árin,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×