Skoðun

Hjarta heilbrigðiskerfisins

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Landspítalinn er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Mikið álag er á starfsfólkinu enda hafa rekstrargjöldin lækkað frá hruni úr um 50 milljörðum króna árið 2008 í um 40 milljarða 2012. Laun eru stærsti útgjaldaliður spítalans, sem þýðir að færra starfsfólk ber uppi þjónustuna. Samt eru 95% sjúklinganna ánægð með þjónustuna og traust á stofnuninni er með því mesta sem gerist enda vinnur starfsfólkið að því sameiginlega markmiði að tryggja öryggi og vellíðan sjúklinga.

Blikur á lofti!

Það gengur ágætlega að manna flestar deildir sjúkrahússins með sérfræðingum en nú eru blikur á lofi. Starfsfólkið er orðið langeygt eftir bættum kjörum. Starfsaðstæður skipta máli ekki síður en launin. Margir af þeim sérfræðingum sem snúa heim að loknu námi kunna vart á þau tæki sem notuð eru á Landspítalanum því þeir lærðu á nýrri tækjakost. Æ fleiri setja þetta fyrir sig. Á þessu ári og tveimur næstu á að verja einum milljarði árlega í tækjakaup. En gömlu byggingarnar henta illa fyrir nýjasta tækjakostinn.

Húsakosturinn

Landspítalinn er á sextán stöðum í um 100 húsum. Óhagræðið er augljóst og stjórnendur sjúkrahússins leggja áherslu á að nálægð milli deilda auki öryggi sjúklinga. Gamla Landspítalabyggingin var byggð árið 1930 og flestar hinna bygginganna fyrir 1970. Það segir sig sjálft að þær voru ekki hannaðar fyrir nútíma sjúkrahúsrekstur. Þjóðin er að eldast og því mun álag á spítalann aukast mjög á næstu árum. Endurnýjun á húsakosti sjúkrahússins er mikilvæg til að mæta nútímatækni og þörfum. Sjúkrahúsið er hjarta heilbrigðiskerfisins sem styður alla aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Framkvæmdin kostar um 60 milljarða eða um 150% af rekstrarkostnaði sjúkrahússins á ári. Hún sparar einnig tæpa þrjá milljarða í rekstri árlega með sameiningu starfseminnar á einn stað.

Sýnum sama stórhug og þegar fyrstu byggingar spítalans risu á erfiðum tímum um 1930. Stöndum við áform fyrri ríkisstjórnar, verjum heilbrigðiskerfið okkar og byggjum upp nútíma húsakost fyrir Landspítalann.




Skoðun

Sjá meira


×