Skoðun

Bróðir minn Krabbameinsfélagið

Hildur Baldursdóttir skrifar
Um miðjan mars á þessu ári greindist ég með brjóstakrabbamein. Sá dómur var mér eðlilega þungbær. Fyrirvaralaust breyttist lífið. Árs veikindaleyfi frá vinnu og lífið umturnaðist. Á slíkum tímum þarf maður marga bandamenn.

Við þekkjum það tilsvar frá hetjum fornsagnanna: „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi“. Margir „bræður“ hafa fylkt sér að baki mér og einn af þeim öflugri er Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Góð vinkona beindi mér þangað fljótlega eftir greiningu og það er ekki ofmælt að mér var tekið opnum örmum.

Fyrst fékk ég tíma í slökun sem róaði strekktar taugar og fleiri slíkir tímar hafa bæst við. Svo var mér bent á snyrtinámskeið. Ég hélt að það væri bara pjatt, en annað kom á daginn. Ekki minnst gagnlegt að fá aðstoð við að sættast við breytt útlit. Nú er ekki lengur í boði að skella á sig maskara og glossi og líta bara skikkanlega út. Húðin breytist og augnhár hverfa, en ég fékk góða hjálp við að takast á við það.

Fjölbreyttir fyrirlestrar eru í boði bæði til gagns og gamans. Síðast var ég að læra um varðveislu og flokkun á stafrænum ljósmyndum.

Frá upphafi hef ég mætt eins oft og ég get í Qi-gong hugleiðslu undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar leikara. Við öndum inn góðri orku, stjórnum henni, slökum og tæmum hugann. Þessar æfingar hafa nýst mér vel þegar verkir eða áhyggjur segja til sín.

Námskeið eru fjölbreytt í Skógarhlíðinni. Núna er ég á frábæru átta vikna námskeiði í „Núvitund“ (Mindfullness). Það námskeið hjálpar til við að lifa í núinu og njóta augnabliksins. Að bægja frá sér erfiðum hugsunum og takast á við það sem mætir manni.

Það sem er samt allra best er viðmótið sem mætir manni í Ráðgjafarþjónustunni í Skógarhlíðinni. Ekki bara frá starfsfólki, heldur líka hinum gestunum. Ég reyni að fara þangað eins oft og ég get, því mér líður ævinlega betur eftir heimsóknina, hvert svo sem erindið er.

Ég hef alltaf tekið einhvern þátt í bleika mánuðinum og þá hugsað til þeirra sem standa á vígvellinum. Verð að viðurkenna að mánuðurinn í ár er öðruvísi. Nú er það ég sem er í baráttunni og tek við og þakka hlýjar hugsanir og stuðning.




Skoðun

Sjá meira


×