Skoðun

Öruggir innviðir samfélagsins

Böðvar Tómasson skrifar
Samfélag okkar er sífellt háðara tæknilegum innviðum og þolið gagnvart truflunum í þjónustu sem það veitir er takmarkað. Því þarf að byggja þessa innviði með heildaröryggi samfélagsins í huga og taka tillit til þess við hönnun kerfanna, en einnig við skipulag og landnotkun.

Margar þjóðir hafa sérstaklega skilgreint mikilvæga innviði, svo sem veitukerfi, samskiptakerfi, samgöngukerfi, heilbrigðisþjónustu og fleira, til að geta meðhöndlað öryggi þeirra með viðunandi hætti. Opinber skilgreining á mikilvægum innviðum á Íslandi er ekki til og óljóst hvaða markmið eru sett varðandi öryggi þeirra. Unnið hefur verið að auknu öryggi á afmörkuðum sviðum, til dæmis fyrir fjarskipti og fjármál, en heildstæða nálgun vantar.

Lög um almannavarnir taka til samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum, en ekki til öryggis þeirra innviða sem nauðsynlegir eru til að tryggja viðbrögðin. Því eru gloppur þegar kemur að því að tryggja heildaröryggi landsmanna. Öryggi samfélagsins byggist ekki eingöngu á stökum innviðum heldur eru innviðirnir innbyrðis háðir hver öðrum. Það er þáttur sem oft yfirsést við mat á öryggi þeirra. Milli þeirra eru margs konar tengsl sem geta verið áþreifanleg, landfræðileg, tölvutengd eða jafnvel rökræn. Bilun í einu kerfi getur auðveldlega leitt til þess að annað kerfi dettur út og þannig valdið keðjuverkun eða þrepamögnun bilunarinnar.

Nýlegt dæmi frá Vestfjörðum sýnir þessi tengsl ágætlega og hvernig þrepamögnun verður. Óveður olli víðtæku rofi á rafmagnslínum og rafmagnsleysi á stóru svæði. Fjarskiptasendar eru aðeins með varaafl í takmarkaðan tíma og flestir símar landsmanna eru þráðlausir og þarfnast reglulega hleðslu. Fjarskipti lögðust því niður að miklu leyti, sem torveldaði viðbragðsaðilum að sinna hlutverkum sínum. Varaaflstöðvar ýmist virkuðu ekki þegar til þurfti að taka eða kláruðu olíubirgðirnar. Dæling olíu á eldneytisstöðvum er yfirleitt háð rafmagni.

Í nýrri skipulagsreglugerð (nr. 90/2013) er eitt af markmiðunum að hafa öryggi að leiðarljósi við þróun byggðar og landnotkunar. Í því samhengi þarf að tryggja öryggi samfélagsins í víðu samhengi og strax á svæðisskipulagsstigi þarf að átta sig á áhættum tengdum innviðum þess. Fyrir dreifikerfi rafmagns getur öryggið t.d. falist í því að hafa óháðar dreifileiðir, næga flutningsgetu og möguleika á að lagfæra dreifikerfið með skjótum hætti, við bilanir.

Framtíðarverkefni yfirvalda í öryggismálum er að skilgreina mikilvæga innviði samfélagsins og setja viðmið um ásættanlegt öryggi þeirra. Í mörgum tilvikum þarf að auka áfallaþol þeirra og tryggja að samtenging þeirra hafi ekki margföldunaráhrif þegar áföll dynja yfir. Tryggja þarf að tekið sé tillit til heildaröryggis í skipulagi strax á fyrstu stigum skipulagsferlisins.




Skoðun

Sjá meira


×