Enski boltinn

City tók tilboði Juventus í Tevez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum eru góðar líkur á að Argentínumaðurinn Carlos Tevez sé á leið frá Manchester City. Félagið mun hafa samþykkt kauptilboð Juventus í kappann.

Tevez á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við City en kaupverðið er sagt nema um tíu milljónum punda. Áætlað er að Tevez haldi til Ítalíu á morgun til að semja um kaup og kjör.

Juventus mun hafa boðið Tevez þriggja ára samning en hann kom til City frá erkifjendunum í Manchester United árið 2009. City greiddi þá 47 milljónir punda fyrir hann.

Tevez hefur spilað 148 leiki með City og skorað í þeim 74 mörk. Frægt er þegar hann neitaði að hita upp þegar hann var varamaður í leik City og Bayern München í Meistaradeildinni haustið 2011. Hann var settur út úr liðinu og kom ekki aftur fyrr en undir lok þess tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×