Skoðun

Sparað til enn meira tjóns

Sigþór Sigurðsson skrifar
Fyrir um ári síðan ritaði ég grein og birti opinberlega þar sem ég rakti fyrir samgönguráðherra þvílíkt ábyrgðarleysi það væri að skera svo hastarlega niður viðhaldsfé Vegagerðarinnar að vegakerfið væri í stórhættu. Framlög til viðhalds vega hafa nú í fjögur ár verið undir helmingi þess sem talið er eðlilegt. Vegagerðin sjálf hefur metið að uppsöfnuð þörf fyrir viðhald sé 8-10 milljarðar eftir þessi hörmungarár.

Fyrir um einu og hálfu ári fór fulltrúi fyrirtækja sem starfa við vegagerð og fulltrúi Samtaka iðnaðarins á fund samgöngunefndar þingsins. Þingmenn hlustuðu brúnaþungir á okkur útlista hættuna af því að halda ekki við slitlagi á þjóðvegum landsins. Ef það brotnar upp og burðarlag veganna skemmist kostar allt að tíu sinnum meira að gera við þann veg en ef slitlaginu er viðhaldið eðlilega. Því í raun er um nýbyggingu vegar að ræða þegar slíkt gerist. Það var engu líkara en okkur væri ekki trúað. Embættismenn Vegagerðarinnar fóru margar ferðir með betlistaf til að útskýra hættuna og afleiðingar þess að gera ekki neitt. Árangur enginn. Hvorki þingmenn né samgönguráðherra sjálfur sáu ástæðu til að forgangsraða upp á nýtt í kerfinu svo bjarga mætti verðmætum.

Nú hrynja vegirnir hver af öðrum, Vestfjarðavegur, Súðavíkurhlíð, Þverárfjall, og sjálfur þjóðvegur 1 er mjög víða illa farinn. Það var lokað fyrir fiskflutninga frá Vestfjörðum, það er nánast ófært fyrir smábíla um þjóðvegi milli bæja. Það er búið að vinna stórtjón. Vegagerðarmenn og verktakar eru ekki hávær hópur og kannski er það ástæðan fyrir því að ríkistjórnin komst upp með að skera niður meira en 50% af útgjöldum til vegamála meðan annars staðar voru látnar duga eins stafs tölur.

En kannski er öllum sama? Það er að koma nýtt kjörtímabil og þá kemur núverandi samgönguráðherra þetta í öllu falli ekki lengur við. Eigum við að spara til enn meira tjóns ?




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×