Innlent

Framtíð nýs Landspítala skýrist í fjárlögum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Það skýrist í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram eftir tvær vikur hvort vinna við byggingu nýs Landspítala heldur áfram. Gunnar Svavarsson, formaður byggingarnefndar vegna spítalans, segir að tryggja þurfi verkefninu rúmlega 100 milljónir í fjárlögum ef ljúka á fullnaðarhönnun vegna minnsta verkhluta verkefnisins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Gagnályktað hefur verið frá þessu á þann veg að ekki sé á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að ljúka byggingu nýs Landspítala.

Samt er undirbúningur vegna verkefnisins langt á veg kominn. Forvali lauk vegna útboða fyrr í sumar og voru þrír hópar metnir hæfir til að taka þátt í lokuðum aðskildum útboðum fyrir 58.500 fermetra meðferðarkjarna og um 14.000 fermetra rannsóknarhús við Landspítalann. Þá voru fimm hópar metnir hæfir til að taka þátt í útboðum fyrir um 21.300 fermetra bílastæðahús og um 4.000 fermetra sjúkrahótel við Landspítalann. Deilskipulag vegna spítalans var unnið í vor og ekki kært.

Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala ohf. og formaður byggingarnefndar, segir að framhaldið ráðist í fjárlögum næsta árs og næstu ára.

Ef ekki verður gert ráð fyrir verkefninu í fjárlögum næsta árs er þá sjálfhætt? „Já, eða að eigandi verkefnisins, þ.e ríkisvaldið, taki ákvörðun um að skoða verkefnið á annan hátt. Eða þá að bíða með verkefnið,“ segir Gunnar.

Kristján Þór Júlísson, heilbrigðisráðherra, sagði í þættinum Pólitíkinni með Höskuldi Kára Schram hér á Vísi að ótímabært væri að fara af stað með byggingu spítalans í heild sinni núna en sagðist tilbúinn að skoða verkefnið í áföngum eða minni útfærslur.

Hvað þarf mikla fjárveitingu til verkefnisins á fjárlögum næsta árs til að koma því áfram á næsta fasa? „Það veltur á því hvaða verkhlutar eru teknir áfram. Minnsti verkhlutinn er sjúkrahótelið. Til þess að halda því áfram og klára fullnaðarhönnun þarf rúmar hundrað milljónir króna á fjárlögum næsta árs svo hægt sé að bjóða út fullnaðarhönnun á því verki,“ segir Gunnar Svavarsson.


Tengdar fréttir

Auglýsa forval vegna hönnunnar á nýja Landspítalanum

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur í samræmi við heimild í lögum heimilað Nýjum Landspítala ohf. að auglýsa forval bjóðenda vegna fullnaðarhönnunar á byggingum nýs Landspítala við Hringbraut.

Nóg komið af niðurskurði

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir nóg komið af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Hann vill setja heilbrigðis-, mennta- og löggæslumál í forgang og skera niður í öðrum málaflokkum.

Er nýr Landspítali of stór biti?

Flest viljum við standa vörð um heilbrigðiskerfið. Við viljum eiga kost á sérhæfðum meðferðarrúrræðum ásamt góðri grunnþjónustu fyrir alla. Aðkallandi er að efla heimahjúkrun og hlúa betur að eldri borgurum. Einnig er nauðsynlegt að stjórnvöld standi við gefin loforð varðandi lífeyri og almannatryggingar. Það nægir ekki að sauma vasa á líkklæðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×