Innlent

"Ótækt að hækka gjaldskrá án mótframlags“

Menntamálaráðherra segir það algjörlega ótækt að gjaldskrá túlkaþjónustu heyrnalausra hafi verið hækkuð án þess að lagðir væru meiri fjármunir til málsins á móti. Fyrrum ríkisstjórn tók endanlega ákvörðun um hækkun á gjaldskrá túlkaþjónustu heyrnalausra í maí síðastliðnum og var sú hækkun upp á 45%.

Eins og kom fram í fréttum okkar um helgina hefur þessi hækkun komið illa við þá sem þurfa á slíkri þjónustu að halda, sérstaklega í ljósi þess að ekkert fjármagn var lagt til frá menntamálaráðuneytinu til að mæta þessum hækkunum. Framlag til að tryggja heyrnarlausum túlkaþjónustu vegna daglegs lífs hefur verið tíu milljónir króna á ári frá árinu 2004 og eru þessar tíu milljónir fyrir 2013 búnar.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að þegar tekin var ákvörðun um hækkun gjaldskrárinnar, án þess að fjármagn væri aukið, hafi í raun og veru verið tekin ákvörðun um að skerða þjónustuna sem nam þessum 45%.

Illugi hefur kallað eftir því hjá nefnd sem nú starfar við að fara yfir málefni heyrnalausra að hún flýti sinni vinnu, en nefndin mun gera tillögur um hvaða aðili skuli bera kostnað af túlkuninni. „Þörfin er þessi. Hún er mjög brýn og þetta er hópur sem að þarf á þessari þjónustu að halda. Ég geri mér alveg grein fyrir þvi,“ segir hann.

Fjármunir til að dekka kostnað fyrir túlkaþjónustu tengdri daglegum þörfum heyrnalausra, út árið, eru ekki til í menntamálaráðuneytinu og segir Illugi að hann hefði auðvitað viljað að það hefði verið haldið öðruvísi á þessum málum. „Mér finnst sjálfum algjörlega ótækt að gera þetta eins og lagt var upp með, að hækka gjaldskrána um 45% án þess að leggja fram meiri fjármuni til málsins. Þá lenda menn einmitt í þessari stöðu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×