Innlent

Hafnarfjarðargrín frá Ingvari Viktors

Jakob Bjarnar skrifar
Ingvar Viktorsson. Furðu sætir að hann hafi ekki sent frá sér bók sem þessa fyrr.
Ingvar Viktorsson. Furðu sætir að hann hafi ekki sent frá sér bók sem þessa fyrr. Stefán Karlsson
Allir í Hafnarfirði þekkja Ingvar Viktorsson, fyrrverandi bæjarstjóra og kennara. Hann var að senda frá sér sína fyrstu bók sem heitir einfaldlega Húmör í Hafnarfirði.

„Ég bara veit það ekki,“ segir Ingvar Viktorsson nú rithöfundur en fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði aðspurður hvers vegna hann sé ekki löngu byrjaður að skrifa bækur? „En þetta er nauðsynlegt að gera. Það verður að halda þessum köllum á lífi þó þeir séu sumir löngu farnir, sumir.“

Eins og titill bókarinnar gefur til kynna inniheldur hún gamansögur af Hafnfirðingum. „Þetta er allt litrófið. Mikið úr Flensborg en þar var ég að kenna í tuttugu ár. Og reyndar sögur úr öðrum skólum, sem og íþróttafélögum.“ Og þar er Ingvar vitaskuld einkum að tala um FH en fáir eru harðari FH-ingar en einmitt hann. Þar er hann nú heiðursfélagi.

„Þetta hefur safnast upp í gegnum tíðina og það var af nægu að taka. Menn geta rétt ímyndað sér. Það væri hægt að skrifa heila bók bara um Halldór heitinn Ólafsson enskukennara í Flensborg.“

Hafnfirðingar hafa náttúrlega ættleitt húmorinn, eftir að hann hafði verið í einhvers konar reiðileysi á Íslandi. En, sko nú hafa menn eins og Árni Johnsen og Guðni Ágústsson sent frá sér bækur sem byggja á gamansögum. Og spurt er: Eru þeir ekki að kássast uppá annarra manna jússur?

„Ég neita að svara svona spurningu,“ segir Ingvar Viktorsson en bók hans hefur þegar fengið feikilega góðar viðtökur. Fullt var út úr dyrum þegar hann kynnti bókina í Eymundsson í Hafnarfirði nú fyrir fáeinum dögum og hún er þegar farin að sýna sig á metsölulistum.

Upp rísi Þjóðverjar

Sögurnar eru mislangar en flestar stuttar og snarpar. Hér er eitt ágætt dæmi úr bókinni Húmör í Hafnarfirði:

Hallsteinn Hinriksson, sá mikli hugsjónamaður, kenndi í áratugi leikfimi við Flensborgarskólann. Einu sinni sat hann yfir íslenskuprófi í 1. bekk, þar sem nemendur áttu að skrifa upp Þingvallasöng. Þegar Hallsteinn kom með úrlausnirnar niður á kennarastofu var hann alveg miður sín yfir úrlausn eins spekingsins, en sá hafði byrjaði ljóðið svona:

„Öxar við ána árdags í ljóma, upp rísi Þjóðverjar austur í sveit.“

Hljómar bara ansi líkt en alls ekki það sem beðið var um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×