Innlent

Bílstjóri jeppa grunaður um ölvun

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Áreksturinn var mjög harður, eins og sjá má á bílunum. Þeir eru báðir ónýtir. Mynd/Þorgeir Baldursson
Áreksturinn var mjög harður, eins og sjá má á bílunum. Þeir eru báðir ónýtir. Mynd/Þorgeir Baldursson
„Dóttir mín, tveggja og hálfs árs, var með okkur í bílnum en blessunarlega slapp hún ótrúlega vel,“ segir Bjarki Kristjánsson. Bíll sem hann ók lenti í hörðum árekstri við jeppa við Leirubrú á Akureyri á laugardag. Í bílnum var einnig systir Bjarka.

Áreksturinn var mjög harður, en bílarnir, sem komu hvor úr sinni áttinni, voru á miklum hraða. Systir Bjarka viðbeinsbrotnaði við áreksturinn en talið er að viljað hafi dóttur hans til happs að hún var í nýlegum og góðum barnabílstól. Stúlkan dvaldi þó sólarhring á sjúkrahúsi, þar sem læknar vildu fylgjast með ástandi hennar.

Sjálfur segist Bjarki vera aðeins stirður. „Þetta er alveg ótrúleg heppni og ég er ótrúlega þakklátur að við séum öll í lagi.“

Klippa þurfti ökumann jeppans úr bifreið sinni, en grunur leikur á um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis. Maðurinn mun þó ekki hafa meiðst alvarlega. Bílarnir eru báðir ónýtir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×