Viðskipti innlent

Tíminn að fjara út

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Tíminn styttist Kjarasamningar eru stutt á veg komnir þrátt fyrir að einungist þrjár vikur séu þangað til samningar á almenna markaðnum renna út.
Tíminn styttist Kjarasamningar eru stutt á veg komnir þrátt fyrir að einungist þrjár vikur séu þangað til samningar á almenna markaðnum renna út.
 „Ég er ekki vongóður um að samningar takist fyrir mánaðamót. Enn er mjög margt óljóst varðandi kjarasamningagerðina,“ segir Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur.

Kjarasamningar á almenna markaðnum renna sitt skeið á enda í lok mánaðarins. Ýmislegt hefur orðið til að tefja samningagerðina, fyrst var það fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram í byrjun október en ekki í september.

Þá bíða aðilar vinnumarkaðarins eftir svörum frá ríkisstjórninni um hvernig hún hyggist haga stjórn ríkisfjármála á næstu misserum.

Í fyrradag var samninganefnd Alþýðusambandsins boðuð á fund ríkisstjórnarinnar. Í gær fundaði ráðherrahópur um kjaramál. Forsætisráðherra vildi ekki gefa upp að hvaða niðurstöðu ráðherrarnir hefðu komist á fundinum. Hann sagði að aðilum vinnumarkaðarins yrði kynnt málið fyrst. Þeir hafa ekki enn verið boðaðir á fund svo enn bíða menn svara frá stjórnvöldum.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins segir að samtökin hafi ekki verð boðuð til formlegs fundar með ráðherrum stjórnarinnar.

Þorsteinn tekur undir með Kristjáni að tíminn sé að renna mönnum úr greipum.

„Ef menn nýta tímann vel á að vera hægt að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir mánaðamót."

Eiginlegar kjaraviðræður eru ekki hafnar, en Kristján vonast til að þær hefjist i næstu viku.

Þeir einu sem hafa lagt fram formlega kröfugerð eru 16 félög innan Starfsgreinasambandsins sem eru í samfloti í samningsgerðinni. Kristján segir að Flóabandalagið, það er Hlíf í Hafnarfirði, Efling í Reykjavík og Verkalýðs og sjómannafélag Hafnarfjarðar hafi ekki lagt fram niðurneglda kröfugerð i krónum og prósentum.

Hann segir að það sé himinn og haf milli væntinga fólks um kauphækkanir og þess sem vinnuveitendur séu tilbúnir að semja um. „Ég tel að mestu kjarabæturnar séu að lækka skatta og hækka persónuafslátt,“ segir Kristján.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×